Hoppa yfir valmynd
7. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Átak til að efla norræna málvitund og málskilning (Nordisk sprogkampagne)

Norræna ráðherranefndin stendur nú fyrir heilsársverkefni með það að markmiði að efla norræna málvitund og málskilning (Nordisk sprogkampagne) þ.e. í dönsku, norsku og sænsku. Íslendingar taka þátt í þessu verkefni sem verður nánar auglýst á næstunni.

NORDEN - Norræna ráðherranefndin
norden-logo_is

Norræna ráðherranefndin stendur nú fyrir heilsársverkefni með það að markmiði að efla norræna málvitund og málskilning (Nordisk sprogkampagne) þ.e. í dönsku, norsku og sænsku. Íslendingar taka þátt í þessu verkefni sem verður nánar auglýst á næstunni. (www.nordisksprogkampagne.org og http://www.norden.org/sv/nordiska-ministerraadet/ministerraad/samarbetsministrarna-mr-sam/nordisk-sprogkampagne)

Norræna tungumálasamstarfið er skilgreint í Yfirlýsingu um norræna tungumálastefnu frá árinu 2006, sjá: http://www.norden.org/is/a-doefinni/da/publikationer/publikationer/2007-746.

Eitt af markmiðum hennar er að „allir Norðurlandabúar geti átt samskipti sín á milli, helst á norrænu tungumáli.“ Norræn málstefna byggir á þeirri skoðun að tungumál sem notuð eru í samfélaginu séu lifandi og eigi að vera það áfram og að samstarf  Norðurlanda eigi áfram að fara fram á skandinavískum málum, þ.e. dönsku, norsku og sænsku.

Norræn tungumálastefna byggist á því að allir Norðurlandabúar eigi rétt á:

  • að læra eitt tungumál sem notað sé í samfélaginu
  • að læra að skilja og þekkja eitt skandinavískt tungumál og öðlast skilning á öðrum skandinavískum málum til þess að geta tekið þátt í norrænu málsamfélagi
  • að læra alþjóðatungumál í þeim tilgangi að geta tekið þátt í því að þróa samfélagið
  • að standa vörð um að efla sitt eigið móðurmál og minnihlutamál í landi sínu

Málstefna  Norðurlanda á því að miða að eftirfarandi:

  • að allir Norðurlandabúar geti lesið og skrifað það eða þau tungumál sem nýtt eru í samfélaginu sem þau búa í
  • að allir Norðurlandabúar hafi undirstöðuþekkingu á tungumálaréttindum og stöðu tungumála á Norðurlöndum
  • að allir Norðurlandabúar hafi undirstöðuþekkingu á tungumálaréttindum og stöðu tungumála á Norðurlöndunum
  • að allir Norðurlandabúar kunni að minnsta kosti eitt alþjóðatungumál mjög vel og annað erlent tungumál vel
  • að allir Norðurlandabúar hafi almenna þekkingu á því hvað tungumálið sé og hver áhrif þess séu.

Norræna ráðherranefndin hefur nú ákveðið að hleypa af stokkunum nýju verkefni til þess að blása lífi í kennslu norrænna tungumála, þ.e. dönsku, norsku og sænsku, á Norðurlöndunum. Verkefni þetta snýr fyrst og fremst að börnum og ungmennum og stendur út árið 2011. Því er ætlað að styðja við Yfirlýsingu um norræna málstefnu.

Tungumálaverkefnið, Nordisk sprogkampagnen, byggist annars vegar á að nýta þau verkfæri og verkefni sem fyrir hendi eru á vettvangi norræns samstarfs, s.s. Nordplus og Norræna menningarmálasjóðinn, og hins vegar á þeim verkefnum sem hvert Norðurlandanna ákveður að setja á laggirnar.

Verkefnið var kynnt í Danmörku síðastliðið vor í upphafi formennskuárs Dana í Norðurlandaráði en hugmyndin kom upp á formennskuári Íslendinga. Útnefndir hafa verið tengiliðir í hverju landi, ráðinn sérstakur umsjónarmaður verkefnisins sem hefur aðsetur hjá danskri málnefnd (www.nordisksprogkampagne.org) og sett hefur verið á laggirnar málráð með aðstandendum verkefnisins. Í ráðinu eiga sæti auk starfsmanna skrifstofu ráðherranefndarinnar fulltrúar ráðuneyta,  norrænna verkefna og stofnana sem fást við norræn mál og menningu.

Aðaltilgangur verkefnisins  er að styrkja skilning barna og ungmenna á dönsku, norsku og sænsku og styðja með því norrænan málskilning. Megináhersla verður lögð á að skapa og styðja við verkefni þar sem beita þarf dönsku, norsku og sænsku í gegnum nýja miðla og samskiptaform sem höfða til barna og ungmenna. Verkefnin eiga að sýna fram á greinilegan tilgang og ýta undir gildi norræns samstarfs.  Þau eiga ekki að vera framhald af öðrum verkefnum nema á þeim sé nýtt sjónarhorn. Verkefnin þurfa að ná til margra ólíkra hópa en markhópur hvers og eins á að vera vel skilgreindur.

Ætlunin er að gera norræn mál og menningu sýnilegri og leggja áherslu á gagnkvæman málskilning á dönsku, norsku og sænsku.  Markmiðið er að börn og ungmenni fái aukinn áhuga á að eiga samskipti við jafnaldra sína á Norðurlöndum, að þau geti notað ýmiss konar samskiptaform að eigin vali. Hugsunin er líka að útvega þeim sem vinna með ungmennum tæki og tól til þess að efla málskilning þeirra og áhuga og  beita aðferðum sem þegar fram líða stundir geta nýst bæði ungum sem öldnum, börnum og fullorðnum.

Fjárveiting til norræna tungumálaverkefnisins er 300 þúsund danskar kr. á hvert Norðurlandanna sem þau geta ráðstafað að vild. Ákveðið hefur verið að auglýsa eftir verkefnum hér á landi og mun auglýsing birtast innan tíðar. Stefnt er að því að verkefnin verði heldur stærri en smærri, fá en stór miðað við þessa fjárveitingu. Hvað varðar hinn hluta fjárveitingarinnar er upplýsingar að finna á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar, www.norden.org.

Tengiliður við verkefnið á Íslandi er Erna Árnadóttir sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, [email protected], sími 5459500.

 

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum