Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Máltækni fyrir alla

Málræktarþing á vegum Íslenskrar málnefndar, Máltækniseturs og META-NORD-verkefnisins.

Föstudaginn 27. apríl verður ráðstefnan Máltækni fyrir alla haldin í Háskóla Íslands í Odda, stofu 101, kl. 13-17.

Málræktarþingið er á vegum Íslenskrar málnefndar, Máltækniseturs og META-NORD-verkefnisins. Tilefnið er annars vegar að á þessu ári leggur Íslensk málnefnd sérstaka áherslu á íslensku í tölvum og hins vegar aðMáltæknisetur tekur nú þátt í META - NORD-verkefninu, sem hefur m.a. að markmiði að kynna og efla máltækni í öllum þátttökulöndunum, sem eru Norðurlönd og Eystrasaltslönd.

Ráðstefnan er öllum opin og allt áhugafólk um íslenskt mál, málrækt, máltækni og upplýsingatækni er hvatt til að koma. Mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp og Sabine Kirchmeier-Andersen framkvæmdastjóri dönsku málnefndarinnar heldur erindi. Þá verður rætt um íslenskt viðmót notendahugbúnaðar í tölvum og ýmis máltækniverkefni kynnt, t.d. gagnasöfn, talgervill, talgreinir og samhengisháð ritvilluleit. Einnig verður fjallað um mikilvægi fallbeygingar í leitarvélum.


Kynnt verður ný skýrsla, sem hefur verið gerð um stöðu íslenskrar máltækni, en hliðstæðar skýrslur hafa verið gerðar fyrir 30 Evrópumál innan verkefnisins META - NET sem META - NORD er hluti af
. Í samanburði á stöðu máltækni fyrir þessi 30 tungumál kemur fram að íslenska stendur næstverst hvað varðar málföng (hugbúnað og gagnasöfn), aðeins maltneska stendur verr.
Í skýrslunni er bent á að eigi íslenska að vera lífvænleg þjóðtunga í þróuðum heimi verður hún að geta staðið undir kröfum upplýsingatækninnar. Efling íslenskrar máltækni verði því að vera grunnþáttur í framkvæmd íslenskrar málstefnu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum