Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

„Nordic Cool“ menningarhátíðin í Kennedy Center í Washington

Listir og menning frá Norðurlöndunum verða áberandi í höfuðborg Bandaríkjanna næstu fjórar vikurnar.
nordic cool 2013
Nordic Cool 2013

Stærsta norræna menningarhátíðin, sem haldin hefur verið utan Norðurlandanna, Nordic Cool 2013  verður sett í Kennedy Center í Washington þriðjudaginn 19. febrúar og stendur til 17. mars. Rúmlega 700 listamenn frá öllum Norðurlöndunum auk fjölda matreiðslumanna munu taka þátt í hátíðinni.

Kennedy Center í Washington ber ábyrgð á vali dagskrárliða og listamanna og sér um framkvæmd hátíðarinnar. Til að auka breiddina í dagskránni var ákveðið að hafa einnig umræður og kynningar á grunngildum og stjórnmálum á Norðurlöndum, t.d. um norrænt jafnrétti, sjálfbæra velferð og grænan hagvöxt.

Kennedy Center er ein virtasta og öflugasta menningarstofnun Bandaríkjanna og þar eru leikhús, tónleikasalir og danssvið, sem henta stórum og smáum viðburðum. Höfuðáhersla hátíðarinnar verður á tónlist, leiklist og dans. Á göngum og í ýmsum rýmum hússins verður komið fyrir norrænni myndlist, norrænni hönnunarsýningu og aðstaða verður fyrir tölvuleiki og ýmsa fræðslu fyrir börn, sem Kennedy Center leggur mikla áherslu á. Einnig verða á hátíðinni sýndar norrænar kvikmyndir og bókmenntir Norðurlandanna kynntar með margvíslegum hætti. Á veitingastöðum hússins munu matreiðslumenn frá Norðurlöndunum kynna matarmenningu heimalanda sinna.

Fulltrúar Íslands verða m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenski dansflokkurinn, leikhópurinn Vesturport, Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, hljómsveit Sunnu Gunnlaugsdóttur djasspíanóleikara, Rúrí og Duo Harpverk.

Norræna menningarhátíðin Nordic Cool 2013  varð til í samstarfi John F. Kennedy listamiðstöðvarinnar við stjórnvöld á Norðurlöndum, Norrænu ráðherranefndina, norrænu sendiráðin í Washington og ýmsar stofnanir á sviði menningar og lista á Norðurlöndunum, þar á meðal á Álandseyjum, í Færeyjum og á Grænlandi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum