Hoppa yfir valmynd
4. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kennarar með kennsluréttindi hafa aldrei verið fleiri

Grunnskólakennurum með kennsluréttindi fjölgar en nemendum fækkar.

Á vef Hagstofunnar er greint frá því að aldrei áður í mælingum hennar hefur hlutfall kennara með kennsluréttindi mælst hærra í grunnskólum landsins. Á árunum 1998-2008 var hlutfall réttindakennara á bilinu 80-87%. Haustið 2011 voru 95,5% kennara með kennsluréttindi og haustið 2012 voru 95,9% kennara með kennsluréttindi. Þá hefur starfsfólki grunnskólans fækkað fjórða árið í röð. Haustið 2012 voru 7.279 starfsmenn í 6.550 stöðugildum í grunnskólum á Íslandi. Þar af voru 4.784 starfsmenn við kennslu í 4.534 stöðugildum.
Nemendum í grunnskólum á Íslandi hefur fækkað, þeir voru 42.320 haustið 2012 og höfðu ekki verið færri síðan árið 1997. Grunnskólanemendum fækkaði um 45 frá fyrra ári, eða um 0,1%. Haustið 2011 voru flestir nemendur að meðaltali í bekk eða 19,1 nemandi. Þeim fækkaði lítillega haustið 2012 og voru þá 18,9 nemendur í bekk að meðaltali. Nemendur í sérskólum og sérdeildum eru undanskildir.
Hagstofan greinir einnig frá því að í kjölfar laga um leikskóla og grunnskóla frá árinu 2008 er orðið algengara að leikskólar og grunnskólar og jafnvel tónlistarskólar séu reknir sem ein skólastofnun með einum stjórnanda. Haustið 2012 átti slíkur samrekstur sér stað í tæplega 30 skólastofnunum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum