Hoppa yfir valmynd
11. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fyrsta skóflustungan verður tekin að Húsi íslenskra fræða við Arngrímsgötu 5

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mun í dag kl. 17 taka fyrstu skóflustunguna að nýbyggingu fyrir starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands, Húsi íslenskra fræða.
Hús íslenskra fræða
Hús íslenskra fræða

Fyrsta skóflustungan verður tekin að Húsi íslenskra fræða við Arngrímsgötu 5 í dag, mánudag 11. mars, kl. 17.


  • Byggingin mun hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands
  • Stefnt er að því að byggingin verði vottuð sem vistvænt mannvirki samkvæmt alþjóðlegu vottunarkerfi
  • Grunnvatn af lóðinni verður leitt með lögn niður í Vatnsmýri, m.a. til að bæta lífríkið þar.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mun í dag kl. 17 taka fyrstu skóflustunguna að nýbyggingu fyrir starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands, Húsi íslenskra fræða.

Hús íslenskra fræða mun rísa við Arngrímsgötu 5. Lóðin afmarkast af Suðurgötu til austurs, Guðbrandsgötu til suðurs, Arngrímsgötu til vesturs og Þjóðarbókhlöðu til norðurs. Framkvæmdin er hluti af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem ákveðin var í maí 2012. Í byggingunni verður fjölbreytt starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Þar verða ýmis sérhönnuð rými s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á íslensku skinnhandritunum, kennslu og fleira. Húsið verður á þremur hæðum auk kjallara undir hluta þess, heildarflatarmál þess er tæpir 6.500 m2.

Efnt var til opinnar samkeppni á vormánuðum 2008 um hönnun hússins og fyrstu verðlaun hlutu Hornsteinar arkitektar en tæknilegur ráðgjafi þeirra var Almenna verkfræðistofan hf. Að hönnunarsamkeppni lokinni var gengið til samninga við hönnunarteymið um heildarhönnun byggingarinnar. Gert er ráð fyrir að heildarframkvæmdin taki rúm þrjú ár, jarðvinnuframkvæmdir hefjist í þessum mánuði og ljúki í lok maí 2013 og í beinu framhaldi taki annar verktaki við heildarverkinu. Áætlað er að framkvæmdin kosti rúma 3,4 milljarða króna og skiptist kostnaðurinn milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Háskóla Íslands í hlutföllum 70/30%.

Hús íslenskra fræða við Arngrímsgötu 5 – Nánar um verkefnið


Lýsing:

a. Lóð og starfsemi

Hús íslenskra fræða mun rísa við Arngrímsgötu 5. Lóðin afmarkast af Suðurgötu til austurs, Guðbrandsgötu til suðurs, Arngrímsgötu til vesturs og Þjóðarbókhlöðu til norðurs. Breyting á deiliskipulagi lóðar var samþykkt í borgarráði 7. apríl 2011.   

Í byggingunni verður fjölbreytt starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Þar verða ýmis sérhönnuð rými s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir nemendur á mismunandi stigum háskólanáms, fyrirlestra- og kennslusalir, almennar skrifstofur; bókasafn með lesrými auk kaffistofu og tækni- og stoðrýma.

b. Stærðir:


Hús íslenskra fræða verður á þremur hæðum auk kjallara undir hluta hússins. Opinn bílakjallari verður sunnan og vestan megin við húsið. Byggingin er sporöskjulaga, staðsteypt með veðurhjúp úr cortenstáli. Gönguleið/meginás milli Háskóla Íslands og Þjóðarbókhlöðu liggur í gegnum bygginguna sem er umlukin grunnri spegiltjörn. Innan sporöskjulaga formsins er komið fyrir inngörðum sem skrifstofur og fleiri rými opnast út í. Í kjallara verða aðallega þjónusturými svo sem eldhús, skiptiaðstaða starfsmanna, geymslur, þ.m.t. handritageymslur, og tengd rými. Þá er bílageymsla í kjallara, aðstaða fyrir sorp og sorpflokkun, tæknirými o.fl.

Helstu stærðir:

Lóð: 6.502 m²
Brúttóflötur byggingar: 6.490 m²
Brúttórúmmál: 28.065 m³,
Birt flatarmál: 6.490 m²
Nýtingarhlutfall lóðar: 1.0
Byggingarmagn ofanjarðar: 5.165 m²
Stærð bílakjallara: 2.250 m²
Bílastæði í bílakjallara: 60
Bílastæði á lóð: 12

Hönnunarsamkeppni 2008

Efnt var til opinnar samkeppni á vormánuðum 2008 um hönnun húsnæðis Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslenskuskorar (nú Íslensku- og menningardeildar) Háskóla Íslands í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Byggingin er í daglegu tali kölluð Hús íslenskra fræða. Fyrstu verðlaun hlutu Hornsteinar arkitektar en tæknilegur ráðgjafi þeirra var Almenna verkfræðistofan hf. Að hönnunarsamkeppni lokinni var gengið til samninga við hönnunarteymið um heildarhönnun byggingarinnar.

Leiðsöguverkefni – BIM og umhverfisvottun

Hönnunin hefur verið samkvæmt  menningarstefnu stjórnvalda í mannvirkjagerð og sjálfbærni. Verkefnið er leiðsöguverkefni þar sem unnið hefur verið með nýjungar á sviðum hugmyndafræði upplýsingalíkana mannvirkja (Building Information Modeling - BIM) og aðferðafræði vistvænnar hönnunar. Stefnt er að því að byggingin verði vottuð sem vistvænt mannvirki samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu BREEAM (BRE (British Research Establishment) eru bresk samtök sem votta byggingar samkvæmt BREEAM umhverfisvottunarkerfinu (BRE Environmental Assessment Method)).

Samráð við hagsmunaaðila

Verkframkvæmdin mun óhjákvæmilega hafa áhrif á nágranna (hagsmunaðila) á byggingartíma og lögð er rík áhersla á gott samstarf þá. Verkefnið hefur verið kynnt næstu nágrönnum og stefnt er að reglulegum samráðsfundum með þeim á verktíma (á tveggja vikna fresti).

Sérlausn, jarðvatnslögn

Grunnvatn stendur nokkuð hátt á lóðinni og hæð jarðvatnslagnar við sökkul töluvert lægri en hæð frárennslislagna í Suðurgötu. Á hönnunartíma kom upp sú hugmynd að leggja jarðvatnslögn (160 mm) frá lóðinni undir Suðurgötu gegnum lóð Háskólans út í Vatnsmýri en við það fengist sjálfrennandi vatn frá lóðinni þangað. Markmiðið er að minnka hættu á leka í kjallara Húss íslenskra fræða og um leið myndi lífríki tjarnar í Vatnsmýri batna við að fá ferskt vatn. Stefnt er að því að leggja jarðvatnslögn frá lóð út í tjörn við Norræna húsið.

Verkkaupi

Verkkaupi er mennta- og menningarmálaráðuneytið og Háskóli Íslands. Í stýrihópi sátu fulltrúar ráðuneytisins, Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Verkframkvæmd, tímaáætlun

Gert er ráð fyrir að heildarframkvæmdin taki rúm þrjú ár, jarðvinnuframkvæmdir hefjist í byrjun mars og ljúki í lok maí 2013 og í beinu framhaldi taki annar verktaki við heildarverkinu.

Gera má ráð fyrir að uppsteypu kjallara verði lokið síðsumars 2014 og heildarverkinu verði lokið vorið 2016. Í framhaldi fari fram virkni- og viðtökuprófanir og starfsmenn geti flutt inn sumarið 2016 og að starfsemi geti hafist í húsinu haustið 2016.

Áætlað er að á byggingartímanum verði starfsmenn við verkframkvæmdir á staðnum um 120 þegar hæst stendur.

Heildarkostnaðaráætlun

Áætluð fjárþörf verksins á árunum 2013-2015 er:
2013                  2014                     2015                     Samtals: 2013-2015
800.000.000    1.110.000.000    1.510.000.000     3.420.000.000

Þessi kostnaður skiptist milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Háskóla Íslands í hlutföllum 70/30 %.
Áfallinn kostnaður, um 370 m.kr. vegna ráðgjafar fram að útboði, var fjármagnaður með fjárveitingum fyrri ára.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum