Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Aðgengilegt efni um menntamál innflytjenda

Samantekt, upptökur og efni frá HringÞingi og morgunverðarfundum um menntamál innflytjenda.


1. HringÞing

Fjallað var um stöðu og framtíð menntamála innflytjenda á öllum skólastigum og í fullorðinsfræðslu á opnu þingi – HringÞingi - sem haldið var í Rúgbrauðsgerðinni í Reykjavík 14. september 2012 og sem rúmlega 200 manns tóku þátt í.

Helsta markmið þingsins var að skapa samræðuvettvang þeirra fjölmörgu sem koma að menntamálum innflytjenda. Leitað var álits þinggesta á forgangsröðun verkefna við þróun þessara mála og rætt hver skuli vera helstu forgagnsverkefni á sviði menntamála innflytjenda. Á þinginu voru einnig kynnt áhugaverð og hagnýt verkefni sem tengjast menntamálum innflytjenda í framkvæmdaáætlun, sem mótuð verður á næstu misserum. Kynnt voru fjölmörg áhugaverð og hagnýt verkefni, sem tengjast menntamálum innflytjenda á öllum skólastigum og athyglisverðar hringborðsumræður voru um orðræðuna í samfélaginu gagnvart innflytjendum. Einnig voru áhugaverðar hringborðsumræður um kennaramenntun fyrir kennslu innflytjenda. Þinggestir voru virkir allan daginn og fram kom mikil ánægja meðal þeirra um að fá tækifæri að koma sjónarmiðum á framfæri um helstu úrlausnarefni á þessu sviði og jafnframt  fá tækifæri til að kynnast ýmsum þróunarverkefnum.

Að þinginu stóðu: Innflytjendaráð, velferðarráðuneytið, mennta- og menningarmála­ráðuneytið, Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur­borgar, Fjölmenningarsetur, Tungumálatorg, Háskóli Íslands, Þjónustumiðstöð Breiðholts og Samband íslenskra sveitarfélaga.

  • Hægt er að nálgast ýmislegt efni frá þinginu og myndir á vef þingsins, http://tungumalatorg.is/hringthing og þar er einnig hægt að horfa á upptöku frá hluta þingsins.

 

2. Morgunverðarfundir um menntun innflytjenda

Í kjölfar HringÞingsins hélt hópurinn, sem sá um undirbúning þingsins, áfram störfum. Hann skipuðu Björk Óttarsdóttir, Elsa Arnardóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir, Guðni Olgeirsson, Guðrún Á Sigurðardóttir,  Hulda Karen Daníelsdóttir og Þorbjörg Þorsteinsdóttir. Hópurinn fór yfir helstu niðurstöður þingsins og taldi hann rétt að halda umræðunni áfram. Ákveðið var að halda fjóra morgunverðarfundi vorið 2013 með eftirfarandi yfirskriftum.

1.       Öflug náms- og starfsfræðsla, brú milli grunn- og framhaldsskóla og leiðir til að tryggja aðgengi innflytjenda að fjölbreyttu framhaldsskólanámi og vinna gegn brotthvarfi (u.þ.b. 50 þátttakendur).

2.       Virkt tvítyngi - íslenskukennsla fyrir nemendur með íslensku sem annað mál og móðurmálskennsla nemenda af erlendum uppruna (u.þ.b. 70 þátttakendur).

3.       Góð menntun er gulls ígildi - Innflytjendur með takmarkaða formlega menntun (u.þ.b. 30 þátttakendur).

4.       Þjónusta sérfræðinga við nemendur með íslensku sem annað tungumál,  (u.þ.b. 50 þátttakendur).

Morgunverðarfundirnir voru allir haldnir á Grand Hótel og þóttu allir takast mjög vel og voru vel sóttir. Á öllum fundunum var reynt að fjalla um menntun innflytjenda á fleiru en einu skólastigi og gefa þátttakendum tækifæri að taka þátt í umræðum og koma með fyrirspurnir. Fundirnir voru haldnir 6. apríl, 3. maí, 21. maí og 13. júní 2013. Samband íslenskra sveitarfélaga sá um að taka erindi morgunverðarfundanna upp og hafa beina útsendingu á netinu sem ýmsir nýttu sér. Einnig voru öll erindin gerð aðgengileg á heimasíðu Sambandsins og þar er hægt að horfa og hlusta á þau, sjá. http://www.samband.is/um-okkur/fundir-og-radstefnur/.  Þar eru einnig munnlegar samantektir á hverjum fundi fyrir sig.

Dagskrá fundanna:

1.      Öflug náms- og starfsfræðsla, brú milli grunn- og framhaldsskóla og leiðir til að tryggja aðgengi innflytjenda að fjölbreyttu framhaldsskólanámi og vinna gegn brotthvarfi. (u.þ.b. 50 þátttakendur). Fundarstjóri Björk Óttarsdóttir.

2.      Virkt tvítyngi - íslenskukennsla fyrir nemendur með íslensku sem annað mál og móðurmálskennsla nemenda af erlendum uppruna (u.þ.b. 70 þátttakendur). Fundarstjóri Guðni Olgeirsson.

3.      Góð menntun er gulls ígildi - Innflytjendur með takmarkaða formlega menntun (u.þ.b. 30 þátttakendur).  Fundarstjóri Björk Óttarsdóttir.

4.      Þjónusta sérfræðinga við nemendur með íslensku sem annað tungumál (u.þ.b. 50 þátttakendur). Fundarstjóri Hulda Karen Daníelsdóttir.

Þátttakendur voru kennsluráðgjafar á grunnskólastigi og ráðgjafar á leikskólastigi, náms- og starfsráðgjafar, sálfræðingar, talmeinafræðingar, félagsráðgjafar og  kennarar og skólastjórnendur af öllum skólastigum.          

3. Almennt um morgunverðarfundina

Á þessum fjórum morgunverðarfundum voru alls haldin 17 erindi um menntun innflytjenda á öllum skólastigum og af þessum erindum að dæma er mikil gróska í þessum málaflokki hér á landi í leik-, grunn- og framhaldsskólum, í fullorðinsfræðslu, ráðgjöf og stuðningi við skólasamfélagið.  Kynnt var t.d. starf í fjórum framhaldsskólum, þ.e. Fjölbrautaskólanum í Breiðholti,  Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Tækniskólanum og Menntaskólanum í Reykjavík.  Kynnt voru þrjú grunnskólaverkefni, þ.e. í Fellaskóla í Reykjavík, Álfhólsskóla í Kópavogi og Lækjarskóla og grunnskólum Hafnarfjarðar. Einnig voru kynnt nokkur verkefni á leikskólastiginu og fjallað um ýmis verkefni í fullorðinsfræðslu og á vegum Fjölmenningarseturs, Námsmatsstofnuar og fleiri aðila. Einnig kynntu samtökin Móðurmál ýmsar hugmyndir um móðurmálskennslu og aðferðir við að viðhalda móðurmáli.

Það vakti sérstaka athygli hversu margvísleg verkefni og þjónusta er til staðar hér á landi  vegna menntunar innflytjenda á öllum skólastigum en það kom vel fram á þessum fundum samvinna er ekki mikil á milli skólastiga og lítil vitneskja er til staðar um verkefni sem unnin eru á öðrum skólastigum. Kennarar á mismunandi skólastigum vinna ekki saman að þróun kennsluhátta eða skipulagi námsframboðs auk þess sem kennsluráðgjöf og stuðningur er mjög mismunandi eftir skólastigum og landsvæðum. Einnig er engin samræmd stefna til um móðurmálskennslu eða mat og viðurkenningu á móðurmáli, en ýmsar hugmyndir komu fram um frekari þróun á því sviði.  Vakin var athygli á þeim sérstaka vanda fullorðinna innflytjenda með takmarkaða menntun frá fjarlægum málsvæðum, að það getur reynst erfitt fyrir þá að ná tökum á íslensku og aðlagast íslensku samfélagi. Einnig kom fram þó nokkur gagnrýni á fyrirkomulag og skipan íslenskuprófs vegna umsóknar íslenskan ríkisborgararétt, sem Námsmatsstofnun annast fyrir ríkið.

Að loknum síðasta morgunverðarfundinum var ætlunin að stofna félag kennsluráðgjafa á öllum skólastigum, sem sinna menntun innflytjenda. Talið var mikilvægt að vinna betur saman á öllum skólastigum við að þróa kennsluhætti, útfæra og aðlaga námsgögn og að mikilvægt væri að brúa bilið á milli skólastiga með góðri náms- og starfsráðgjöf.

Einnig var talið mikilvægt að samhæfa betur þjónustu menntakerfisins við innflytjendur og setja aðgerðaáætlun af hálfu stjórnvalda í samstarfi við hagsmunaaðila til að byggja upp heildstæða menntun og þjónustu við þennan sívaxandi hóp innflytjenda á öllum skólastigum. Hvetja þurfi t.d. fleiri framhaldsskóla til að taka við nemendum, auka samstarf kennara á öllum skólastigum, þróa betur náms- og starfsráðgjöf, kennsluráðgjöf  og íslenskukennsluna á öllum stigum. Einnig þarf að stuðla með raunhæfum aðgerðum  að virku tvítyngi með stuðningi við móðurmálskennslu og foreldra.

4. Sérstakar samantektir

 

Morgunverðarfundur um virkt tvítyngi 3. maí.

Samantekt: Ingibjörg Einarsdóttir skrifstofustjóri Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar

Allir frummælendur lögðu út frá því mikilvæga viðfangsefni að það sé nauðsynlegt að bæta íslenskukunnáttu þeirra nemenda sem hafa annað mál en íslensku að móðurmáli. Öllum þurfi að vera ljóst að meginforsenda þess að nemendur með annað tungumál en íslensku verði virkir þátttakendur í lýðræðis- og jafnréttissamfélagi sé að ná hæfni í íslensku. En það þarf greinilega að auka samstarf á ýmsum sviðum, rækta gagnkvæma virðingu allra þegna samfélagsins og reyna að styðja og styrkja máluppeldi hvort sem er í skólum eða á heimilum. 

Fríða Bjarney Jónsdóttir nefndi erindi sitt Tvítyngi og fjöltyngi og  lagði áherslu á mikilvægi máluppeldis í leikskólum en þar er einmitt máltökuskeiðið og hvergi á einstaklingsmiðuð kennsla betur við.  Þar læra börn á annan hátt, gjarnan í gegnum leikinn og hún lagði mikla áherslu á viðhorfin; við megum ekki líta svo á að við séum að laga börnin og lækna þau eins og „hallalíkanið“ bendir á.  Hún vitnaði í grein Birnu Arnbjörnsdóttur frá árinu 2000 og sennilega á flest enn við í dag sem þar kom fram. Kennarar verða að trúa á eigin getu og þeir þurfa líka að trúa því að allir geti lært.  Allir þurfa að vera stoltir af menningu sinni og móðurmáli um leið og börn efla færni sína í íslensku.

Úlfar Snær Arnarson, kennslustjóri nýbúa í FÁ kynnti í upphafi starfið í skólanum og gerði grein fyrir samsetningu nemenda en þar eru 98 nýbúar frá 30 löndum.  Hann fékk fundargesti til að velta fyrir sér spurningunni Hverjir eru tvítyngdir? Og hvatti gesti til að ræða það áfram á sínum vinnustað.

Hann nefndi ýmsar kennsluaðferðir og máli sínu til stuðnings sýndi hann myndband sem gaf fólki innsýn inn í starfið.  Hann kynnti tvo nemendur sína af erlendu bergi og þau ávörpuðu fundinn á íslensku.

Helga Björt Möller,kennsluráðgjafi á Dalvík kynnti Söguskjóðuna, foreldratengt verkefni sem hún hefur verið að þróa í sinni heimabyggð.  Hún sagði frá hugmyndafræði Söguskjóðunnar og sýndi afrakstur vinnunnar með foreldrum leikskólabarna á Dalvík.  Hún  taldi stuðning og viðhorf foreldra vera það sem skipti sköpum í máluppeldinu  og því mikilvægt að ná til foreldra og virkja þá.  En það er átaksverkefni og komið hefur í  ljós að það er mun erfiðara að ná til feðra en mæðra, en það er næsta verkefni.

Renata Emilsson Peskováfrá samtökunum Móðurmál flutti síðasta erindið og það byggðist á sjónarhorni foreldra barna af erlendu bergi.  Renata er tékknesk og flutti mál sitt á einstaklega fallegri íslensku.  Hún kom víða við, benti m.a. á að fjöldi tungumála í Íslandi væri 100 og árið 2012 voru 2.663 grunnskólanemendur með annað tungumál en íslensku.

Renata kynnti samtökin Móðurmál, sem eru samtök foreldra tvítyngdra barna og hafa starfað óformlega frá 1994 en voru formlega stofnuð 2001. Hún varpaði í lokin fram tillögum til úrbóta.


Í öllum erindunum kom fram að það þyrfti að stefna að virku tvítyngi og oft snerist þetta um viðhorf og virðingu fyrir móðurmáli allra einstaklinga.  Jákvæð áhrif tvítyngis á nám og vitsmunaþroska kæmu betur í ljós þegar báðum tungumálum væri viðhaldið og lokaorðin voru því að það þyrfti að auka skilning samfélagsins á að stuðningur við öll móðurmál barna væri það sem skilaði mestum árangri.

 Morgunverðarfundur 31. maí um einstaklinga með litla menntun.

Samantekt: Margrét Steinarsdóttir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Ísland

Það var afar áhugavert að hlusta á sérfræðingana sem leitað hafa ýmissa leiða til að kenna ólæsum innflytjendum íslensku. Það sem einkum vakti athygli mína er að sú nálgun gengur ekki að setja fólk undir hattinn „ólæsir“ og ætla að kenna þeim með sömu aðferðum. Margir eru læsir á eigið letur þó þeir séu ólæsir á latneskt letur og reynslan sýnir að þeim gengur betur að læra að lesa nýtt letur.  Annar hópur eru líka þeir sem eru ólæsir á eigið tungumál, hvort sem er á latneskt eða annað letur, vegna lesblindu eða athyglisbrests.

Það er gleðilegt að heyra að unnið sé að námsskrá fyrir ólæsa innflytjendur því þá verða námskeiðin ódýrari og aðgengilegri. Hins vegar er ljóst að meira þarf til en nokkurra vikna námskeið, aðgengi að þeim er einnig mismunandi eftir því hvar einstaklingurinn er búsettur og kennslan er ekki sniðin að þörfum hvers og eins.  Mér virðist augljóst að mun markvissari kennslu er þörf um mun lengri tíma en nú býðst og að kennsla í öðru tungumáli á móðurmáli viðkomandi nemanda (t.d. að thailensku mælandi kennari kenni Thailendingum íslensku) er æskilegust. Sama gildir og um lestrarnám, árangursríkast er að kenna ólæsum að lesa á eigin móðurmáli. Annað sem einnig er mikilvægt er að kenna þau orð sem nýtast einstaklingnum í daglegu lífi, óþarfi að kenna fólki orð sem það hefur ekki not fyrir. Þá hafa ýmsar óhefðbundnar aðferðir verið notaðar við lestrarkennslu, t.d. táknmyndir sem talkennarar nota fyrir börn með málgalla.

Sú hugmynd að taka við innflytjendum á móttökumiðstöð og meta t.d. færni þeirra til að læra íslensku svo finna  megi þeim nám við hæfi hljómar mjög vel.

Annað sem mér fannst eins og rauður þráður í orðum allra fyrirlesara; það þarf að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur og skyggnast bak við þá staðreynd að hann talar ekki íslensku og er jafnvel ólæs. Hann þarf styrkingar og hvatningar við.

Það er jákvætt að reynt hafi verið að koma til móts við ólæsa einstaklinga við framkvæmd íslenskuprófa fyrir ríkisborgararétt með því að sleppa skriflega hlutanum og leggja aukið vægi á hlustun og talað mál. Hins vegar óttast ég að það verði aldrei unnt að tryggja jafnræði allra sem taka prófin, að allir sitji við sama borð. Þeir sem tala germönsk mál standa best að vígi, ólæsir, þeir sem læsir eru á annað letur, lesblindir, fólk með málgalla og aðrir hljóta því alltaf að vera verr settir. Þá er sama hversu aðgengileg og jafnvel auðveld prófin eru, þau munu alltaf reynast ákveðnum hópum erfiðari viðfangs en öðrum.

Morgunverðarfundur þann 13. júní. Þjónusta sérfræðinga við nemendur með íslensku sem annað tungumál, 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum