Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

„Jarðarbolti“ til að efla kennslu í náttúrufræði í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti leikskólanum Laufásborg í Reykjavík fyrsta boltann við athöfn í dag. Á sama tíma var Geimurinn.is, krakkavefur Stjörnufræðivefsins, opnaður.

Jarðarbolti til að efla kennslu í náttúrufræði í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla
Jarðarbolti til að efla kennslu í náttúrufræði í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla
Stjörnufræðivefurinn hefur í samstarfi við alþjóðlega fræðsluverkefnið EU UNAWE [1] og innlenda stuðningsaðila [2] fært öllum leik- og grunnskólum á Íslandi „Jarðarbolta“ að gjöf. Tilgangurinn með gjöfinni er að efla áhuga barna á náttúrunni og vísindum og gera þeim kleift að læra um plánetuna sína á skapandi og skemmtilegan hátt. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti leikskólanum Laufásborg í Reykjavík fyrsta boltann við athöfn í dag. 

Á sama tíma opnaði ráðherra nýjan krakkavænan Stjörnufræðivef á slóðinni Geimurinn.is. Þar er heilmikill fróðleikur um stjörnuskoðun, stjörnufræði og jarðfræði, auk frétta af nýjustu uppgötvunum stjarnvísindamanna.

Í tilkynningu frá Stjörnufræðivefnum segir m.a.: „Jarðarbolti (e. Earthball) er uppblásið líkan af Jörðinni. Hann þykir framúrskarandi kennslutæki fyrir börn og er notaður í þeim tilgangi um allan heim. Með Jarðarboltanum er hægt að fræðast á auðskiljanlegan hátt um lögun Jarðar, dag og nótt, árstíðir, tungl- og sólmyrkva og stöðu Jarðar í alheiminum, svo nokkur dæmi séu nefnd. Á Jarðarboltanum eru engin landamæri til að undirstrika að mannkynið býr allt saman á einni plánetu.

„Árið 2010 færðum við öllum grunn- og framhaldsskólum á Íslandi stjörnusjónauka að gjöf. Við höfðum alltaf hug á að færa leikskólum góða gjöf líka og teljum að Jarðarboltinn eigi eftir að nýtast vel og vonandi vekja áhuga barna á plánetunni okkar,“ segir Sævar Helgi Bragason, einn af ritstjórum Stjörnufræðivefsins.

Verkefnið er stutt af innlendum fyrirtækjum og alþjóðlega mennta- og fræðsluverkefninu EU Universe Awareness (EU UNAWE), sem hefur dreift um 7000 Jarðarboltum til nokkur þúsund skóla í 57 löndum í sjö heimsálfum. Ísland er eina landið þar sem allir leik- og grunnskólar landsins fá bolta.

„Með því að færa öllum leik- og grunnskólum á Íslandi Jarðarboltann að gjöf viljum við gera börnum kleift að læra á skapandi, skemmtilegan og lifandi hátt um plánetuna okkar og stöðu hennar í alheiminum og styðja auk þess við bakið á kennurum,“ segir Pedro Russo við Leiden-háskóla í Hollandi, framkvæmdarstjóri EU UNAWE verkefnisins, sem er staddur hér á landi af þessu tilefni.

Markmiðið með gjöfinni er að efla áhuga barna á náttúrunni og vísindum og vekja þau til umhugsunar um mikilvægi þess, að hugsa vel um plánetuna sína. Búið er að útbúa verkefnabók  fyrir börn upp að 12 ára aldri sem í eru fjölmargar hugmyndir um hvernig nota megi boltann í kennslu um stjörnufræði, landafræði, jarðfræði, umhverfismál og líffræði. Bókin er aðgengileg á Stjörnufræðivefnum öllum að kostnaðarlausu“.

 



[1] EU UNAWE (European Universe Awareness for Young Children) er alþjóðlegt mennta- og fræðsluverkefni sem nýtur meðal annars stuðnings Alþjóðasambands stjarnfræðinga, UNESCO og 7. rammaáætlunar Evrópusambandsins um vísindi og menntun. Tilgangur EU UNAWE er að vekja áhuga yngstu kynslóðarinnar (4-12 ára) á vísindum og tækni á skapandi hátt. EU UNAWE er stýrt frá Leiden háskóla í Hollandi, einum elsta og virtasta háskóla Evrópu.

[2] Landsbanki Íslands, Alcan, Alcoa og CCP

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum