Hoppa yfir valmynd
10. mars 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Leiðbeinandi reglur ráðherranefndar Evrópuráðsins um barnvænlega réttarvörslu

Verkefnisstjórn Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi hefur látið þýða leiðbeiningarreglur ráðherranefndar Evrópuráðsins um barnvænlega réttarvörslu

Verkefnisstjórn Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi hefur látið þýða leiðbeinandi reglur ráðherranefndar Evrópuráðsins um barnvænlega réttarvörslu. Ráðherranefndin vekur athygli á þeim hindrunum sem verða á vegi barna í réttarkerfinu og leggur áherslu á að koma þurfi í veg fyrir að börn sem þolendur verði fyrir frekari skaða af völdum málsmeðferðar í málum sem beinast að börnum eða varða börn innan réttarkerfisins. Markmið verkefnisstjórnarinnar með því að láta þýða leiðbeiningarreglurnar er að kynna raunhæfar aðgerðir sem nota megi til úrbóta á sviði löggjafar og framkvæmdar.

Leiðbeiningarreglurnar fjalla um stöðu, hlutverk, sjónarmið, réttindi og þarfir barns við málsmeðferð fyrir dómi og við aðra sambærilega málsmeðferð. Reglurnar eiga við um allar þær aðstæður, þar sem líklegt er að börn hafi samskipti við stofnanir og embætti, sem koma að framkvæmd refsilaga eða laga á sviði einkaréttar eða stjórnsýslu. Markmið með reglunum er að tryggja að við sérhverja málsmeðferð verði öll réttindi barna virt að fullu, þar á meðal réttur til upplýsinga, fyrirsvars, þátttöku og verndar, að teknu viðeigandi tilliti til þroska og skilnings barns, og eðlis viðkomandi máls.

Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi hvetur alla þá, sem bera ábyrgð á eða vinna með öðrum hætti að réttindum barna innan réttarkerfisins, til að kynna sér leiðbeiningarreglur ráðherranefndar Evrópuráðsins um barnvænlega réttarvörslu. Leiðbeiningarreglurnar eru aðgengilegar á íslensku og ensku á vef Vitundarvakningar, vel.is/vitundarvakning.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum