Hoppa yfir valmynd
19. maí 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sveitadagar að vori

Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis og Heimilis og skóla kynntu sér verkefnið Sveitadagar að vori í Varmahlíðarskóla í Skagafirði sem hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2013.

Hopmynd

Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis og Heimilis og skóla kynntu sér verkefnið Sveitadagar að vori í Varmahlíðarskóla í Skagafirði sem hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2013. Auk þess að heimsækja skólann fóru fulltrúarnir á fjögur býli í þar sem rætt var við nemendur og foreldra.

Verkefnið Sveitadagar að vori byggir á margra ára hefð sem þróast hefur frá árinu 1994. Markmiðið er að nemendur kynnist störfum í sveit og læri þannig að þekkja mikilvægi landbúnaðar í sínu heimahéraði. Verkefnið eflir tengsl grunnskólans við nærsamfélagið og byggist á samstarfi foreldra við skólann.

Tilgangur verkefnisins er m.a. að mæta sérstöðu skóla í dreifbýli, en Varmahlíðarskóli skilgreinir sig sem sveitaskóla í nútímasamfélagi. Stærstur hluti nemenda kemur úr dreifbýlinu, allt frá Hjaltadal til Vesturdals. Lögð er áhersla á að starf skólans sé sveigjanlegt og geti með því lagað sig að þeim viðfangsefnum sem hæst bera í heimahéraði hverju sinni.

 Á sveitadögum færir  skólinn sig út fyrir lóðarmörk og foreldrar ganga til liðs við skólastarfið með því að taka nemendur heim á bæi. Nemendur skólans eru þessa daga heima á bæjum og nemendur sem ekki búa í sveit fá inni hjá skólafélögum, vinum og vandamönnum.  Allir nemendur skólans sinna fjölbreyttum vorverkefnum sem til falla, s.s. sauðburði, undir handleiðslu foreldra, sem eru ánægðir með þetta fyrirkomulag, enda annatími í sveitum.

Síðustu ár hafa sveitadagarnir verið fjórir til fimm virkir dagar og allir nemendur, frá 1. – 10. bekk, eru þátttakendur. Þeir vinna að fjölbreyttum verkefnum, t.d. safna upplýsingum um viðkomandi bæ, ábúendur og búskaparhætti, veðurfar, fuglaskoðun, ræktun og áburðarnotkun og orkumál.

Sjá einnig Facebooksíðu Heimilis og skóla: http://www.facebook.com/heimiliogskoli

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum