Hoppa yfir valmynd
21. maí 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sex nýir höfundar hljóta Nýræktarstyrki 2015

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi í dag

Nýrækt höf og rh

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti við athöfn í Gunnarshúsi í dag Nýræktarstyrki 2015 sem Miðstöð íslenskra bókmennta veitti sex nýjum höfundum til útgáfu á verkum þeirra. Þetta er í áttunda skipti sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað.

Nýræktarstyrkir eru sérstakir styrkir til útgáfu á nýjum íslenskum skáldskap og þeim er ætlað að styðja við útgáfu á fyrstu verkum nýrra höfunda og er þar átt við skáldverk í víðri merkingu þess orðs, sögur, ljóð, leikrit, eða eitthvað allt annað.  

Í ár barst 51 umsókn um Nýræktarstyrki frá 45 aðilum. Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, ljóð, barna- og ungmennabækur, smásögur og glæpasögur.

Nýræktarstyrki hljóta að þessu sinni eftirfarandi verk og höfundar:

Að heiman, skáldsaga eftir Arngunni Árnadóttur,

Af hverju breytast allir í kringum mann þegar maður verður UNGLINGUR en ég er alltaf sama krúttið?, ungmennabók eftir Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson, ritstjóri: Bryndís Björgvinsdóttir,

Glópagull og galdraskruddur, barnabók eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur,

Himnaljós, smásögur eftir Áslaugu Björt Guðmundardóttur,

Sirkús, skáldverk eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur.


Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað verulega frá því þeim var fyrst úthlutað hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, árið 2008, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr. Árið 2009 bárust 27 umsóknir og 6 hlutu styrki, árið 2010 bárust 39 umsóknir og voru 5 styrkir veittir og árið 2011 bárust 30 umsóknir og þá var úthlutað 5 styrkjum. Árið 2012 bárust 23 umsóknir og voru 5 styrkir veittir að upphæð 200.000 kr., 2013 bárust 49 umsóknir og 4 verk hlutu styrk. Í fyrra bárust 31 umsókn um Nýræktarstyrkina og hlutu fjórir styrk að upphæð 250.000 kr. og í ár voru umsóknirnar 51 og styrkupphæðin er 400.000 kr.

Sjá nánar á vef Miðstöðvar íslenskra bókmennta

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum