Hoppa yfir valmynd
22. september 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýtt námsmat og hæfnipróf

"Mikilvægt er að hugað sé að hagsmunum nemenda við þær breytingar sem framundan eru þannig að nýja námsmatið gefi rétta mynd af hæfni þeirra við útskrift úr grunnskóla og einnig að þeir njóti jafnræðis vegna umsókna í framhaldsskóla".

Menntamalastofnun

Menntamálastofnun birti föstudaginn 18. september sl. eftirfarandi fréttatilkynningu:


Nýtt námsmat og hæfnipróf

"Vegna umræðu um nýtt námsmat við lok grunnskóla vill Menntamálastofnun upplýsa um aðdraganda breytinga á námsmati og þær aðgerðir sem ætlað er að styðja við innleiðingu þess.

Grunnurinn að breytingum á námsmati við lok grunnskóla var lagður þegar árið 2011 þegar ný aðalnámskrá grunnskóla var gefin út. Þá þegar hófst kynning fyrir kennara, samtök foreldra og fleiri sem málið varðar. Greinasvið aðalnámskrár grunnskóla voru síðan gefin út í mars 2013. Þar er birtur einkunnakvarði og matsviðmið. Breytingin á námsmatinu er sú að einkunnir eru nú gefnar í bókstöfum (A, B+, B, C+ og D) og bak við hvern bókstaf er lýsing á hæfni nemenda á hverju greinasviði, í stað þess að tölulegar einkunnir gátu áður vísað í mismunandi námsefni milli skóla. Markmiðið er þannig að samræma betur einkunnagjöf milli skóla og bæta upplýsingagildi einkunna hvað varðar hæfni nemenda.

Stuðningur við innleiðingu nýs námsmats

Mikilvægt er að hugað sé að hagsmunum nemenda við þær breytingar sem framundan eru þannig að nýja námsmatið gefi rétta mynd af hæfni þeirra við útskrift úr grunnskóla og einnig að þeir njóti jafnræðis vegna umsókna í framhaldsskóla. 

Til þess að styðja við skóla í þessu breytingaferli og gæta að hagsmunum nemenda hefur Menntamálastofnun og mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að ýmsum verkefnum til að styðja við skóla:

    1. 30 milljóna kr. styrk var úthlutað til sveitarfélaga í lok árs 2014 á grundvelli nemendafjölda hvers skóla. Honum var ætlað að styrkja sveitarfélög til að taka upp upplýsingakerfi sem styddi við innleiðingu námskrárinnar og nýtt námsmat.

    2. Þróun á rafrænu skírteini sem tengir saman einkunnir og matsviðmið. Skírteinið samræmir framsetningu einkunna úr skólum landsins og verður fyrst notað vorið 2016 þegar allir grunnskólar taka upp nýtt einkunnakerfi. Menntamálastofnun heldur utan um vinnuna. Skírteininu er ætlað að styðja við námsmat grunnskóla og veita fyllri upplýsingar um námsstöðu nemenda. Þar verður stigagjöf tengd bókstafaeinkunnum þannig að hægt er að draga saman einkunnir á tölulegu formi. Jafnframt geta framhaldsskólar nýtt skírteinið við innritun.

    3. Opnaður hefur verið kynningarvefur um námsmat þar sem veittar eru upplýsingar um nýtt námsmat og leiðbeiningar með dæmum um hvernig byggja megi það upp, sjá  http://vefir.nams.is/namsmat/

    4. Menntamálastofnun hefur hafið undirbúning að því að þróa hæfnipróf sem verða í samræmi við hæfniviðmið nýrrar námskrár. Í nýjum hæfnimiðuðum prófum verður aukin áhersla á hæfni frekar en bóklega þekkingu. Áfram verður lögð áhersla á grundvallarfærni í íslensku, ensku og stærðfræði. Einnig er verið að athuga hvort hægt sé að útbúa hæfnipróf sem tengjast meðal annars lykilhæfni, sem skilgreind er í aðalnámskrá grunnskóla, í skapandi og gagnrýninni hugsun og nýtingu miðla og upplýsinga. Á síðari stigum væri æskilegt að hæfnipróf tækju einnig til verklegrar og listrænnar hæfni.

    5. Áfram er sú regla í gildi að framhaldsskólum verður ekki heimilt að nýta niðurstöður samræmdra prófa, sem haldin eru nú í haust, við innritun. Vegna umræðu um að skólaeinkunnir veiti ekki réttar upplýsingar um námsstöðu nemenda og að þeir standi ekki jafnt að vígi við inntöku í framhaldsskóla mun Menntamálastofnun athuga samhengi skólaeinkunna og einkunna samræmdra prófa. Þessari athugun er einungis ætlað að kanna hvort mikil frávik séu í einkunnagjöf skóla og verða niðurstöður ekki gerðar opinberar fyrir einstaka skóla.

Endanleg ákvörðun ekki tekin um nýtingu hæfniprófa

Ákveðið hefur verið að forprófa hæfnipróf næsta vor. Ekki hefur verið endanlega ákveðið hvernig fyrirkomulag hæfniprófa verður en þau verða unnin og þeim stýrt af hálfu Menntamálastofnunar.

Skólameistarar nokkurra framhaldsskóla, þar sem samkeppni er meðal nemenda um námspláss, hafa lýst yfir áhyggjum af því að með nýjum námsmatskvarða hafi þeir ekki nægilegar upplýsingar um námsstöðu nemenda til að gæta jafnræðis við inntöku. Því hefur verið til athugunar að þeir framhaldsskólar, sem það kjósa, fái heimild til að nýta sér forprófunina við inntöku nemenda næsta vor. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hvort þessi heimild verði veitt en til þess þarf að breyta reglugerð um innritun í framhaldsskóla. 

Framhaldsskólar munu áfram þurfa að leggja námsmat grunnskóla til grundvallar við inntöku nemenda þó svo að heimilað yrði að taka að einhverju leyti mið af niðurstöðum hæfniprófa. Allir nemendur eiga rétt á framhaldsskólavist hver svo sem niðurstaða þeirra verður á hæfniprófi.

Samráð og umræða framundan
Menntamálastofnun hefur átt samtal við nokkra skólameistara framhaldsskóla og skólastjóra grunnskóla um nýtt námsmat og nýtingu hæfniprófa. Í gær áttu fulltrúar stofnunarinnar fund með öllum skólastjórum í Reykjavík um þessi mál og kom þar skýrt fram að skólastjórnendur kalla eftir frekari upplýsingum og stuðningi vegna þeirra breytinga sem nú eiga sér stað. Í framhaldinu verður leitað eftir frekara samráði við skólastjórnendur og kennara um allt land um þessi mál. Einnig verður lögð áhersla á að upplýsa nemendur og foreldra um nýtt námsmat og innritun í framhaldsskóla næsta vor.

Því ber að fagna að umræða um nýtt námsmat meðal almennings er nú hafin. Mikilvægt er að vel takist til um þá umræðu þannig að hún sé upplýsandi og að gætt sé að hagsmunum nemenda sem útskrifast úr grunnskólum næsta vor og sækja um skólavist í framhaldsskólum".
18. september 2015
Arnór Guðmundsson
Forstjóri Menntamálstofnunar

Yfirlit yfir birtingar og kynningar á nýju námsmatskerfi við lok grunnskóla


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum