Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samningurundirritaður um netbirtingarrétt á Íslendingasögum

Mennta- og menningarmálaráðherra, landsbókavörður og fulltrúi Sögu forlags undirrituðu samning um útgáfustyrk og kaup á netbirtingarrétti af heildarútgáfum Íslendingasagna og þátta á dönsku, norsku og sænsku.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti fyrir hönd íslenska ríkisins og Saga forlag ehf. eru aðilar að samningi um útgáfustyrk íslenska ríkisins og kaup á netbirtingarrétti af heildarútgáfum Íslendingasagna og þátta á dönsku, norsku og sænsku, sem Saga hefur gefið út á bókarformi. Landsbókasafni – Háskólabókasafni er með samningnum falin umsjón með framkvæmd samningsins.

Markmið samningsins er að tryggja sem best aðgengi almennings að þeim mikilvæga menningararfi sem í sögunum og þáttunum felst.

Samningurinn felur í sér að íslenska ríkið kaupir rétt til að dreifa og birta á veraldarvefnum eða sambærilegum kerfum, heildarþýðingu allra Íslendingasagna og þátta á dönsku, norsku og sænsku. Efnið skal gert aðgengilegt á veraldarvefnum með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs.

Verkefnið hefst við undirritun samningsins og lýkur árið 2025 þegar aðgangur að textum verður opnaður til fulls á veraldarvefnum. Allir textar hinna þriggja heildarútgáfna Íslendingasagna og þátta á dönsku, norsku og sænsku, verða afhentir við greiðslu árið 2016. Verkin verða annars vegar afhent á PDF sniði, þ.e. eins og verkið var umbrotið og gefið út og hins vegar á flæðandi texta með leiðréttingum sem gerðar voru, þ.e. eins og hann fór í umbrot og útgáfu.

1. Textarnir opnast í lokuðu kerfi árið 2016 sem skal vera ótengt veraldarvefnum. Sett verður upp lokað vinnusvæði í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni þar sem hinar nýju heildarútgáfur Íslendingasagna og þátta á dönsku, norsku og sænsku, verða aðgengilegar fræðimönnum, háskólanemum og öðru áhugafólki um sögurnar. Óheimilt er að afrita textana.

2. Opnað verður til alþjóðlegrar skoðunar 10. janúar 2019. Hægt verður að skoða textana á veraldarvefnum síðu fyrir síðu (pdf).

3. Aðgangur að textanum verður opnaður til fulls 10. janúar 2025.

Samninginn undirrituðu Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Ingibjörg Sverrisdóttir landsbókavörður og Jóhann Sigurðsson framkvæmdastjóri Saga forlags.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum