Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Undirritun samnings umlæsissáttmála

Markmiðið að virkja foreldra í lestrarnámi og þjálfun barna sinna
IMG_9291

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Anna Margrét Sigurðardóttir formaður Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, undirrituðu samning um gerð læsissáttmála fyrir foreldra og kynningarefnis í Áslandsskóla í Hafnarfirði í dag.

Þjóðarsáttmáli um læsi hefur nú verið undirritaður en með honum gera sveitarfélög og mennta- og menningarmálaráðherra ásamt fulltrúum Heimilis og skóla með sér samning um sameiginlegan skilning á því að læsi sé nauðsynlegt til virkrar þátttöku í samfélaginu þannig að hver og einn geti nýtt hæfileika sína sjálfum sér og samfélaginu öllu til velferðar. Einnig samþykkja samningsaðilar að þeir muni vinna að því eftir fremsta megni að a.m.k. 90% nemenda í sveitarfélaginu geti lesið sér til gagns árið 2018. Í dag geta 79% barna á Íslandi lesið sér til gagns samkvæmt niðurstöðum PISA 2012. Áhersla er lögð á samvinnu við foreldra og foreldrafélög til að ná markmiðum samningsins.

IMG_9307

Til þess að eiga gott samstarf við foreldra þarf fyrst að ná til þeirra og fá þá til að veita málefninu athygli. Kynna þarf fyrir foreldrum um hvað lestrarnám snýst, hvert þeirra hlutverk er, hvaða leiðir eru færar, hvernig þeir geta hjálpað barninu að öðlast góða lestrarfærni, mikilvægi þeirra framlags o.s.frv. Markmiðið er að gera foreldrum grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera, benda á góðar leiðir og hvað hægt er að gera í stöðunni. Einnig að höfða til samtakamáttar og samábyrgðar foreldra með því að búa til læsissáttmála sem svipar að upplagi til foreldrasáttmála Heimilis og skóla (nánar á heimiliogskoli.is). Sáttmálinn er auk þess vel til þess fallinn að tengja betur saman kennara og foreldra.

Meginmarkmið með samningi um læsissáttmála eru að:

  • Stuðla að aukinni lestrarfærni barna og unglinga með þátttöku og stuðningi foreldra við framkvæmd þjóðarsáttmála um læsi sem öll sveitarfélög hafa undirritað ásamt ráðherra og fulltrúum Heimilis og skóla.
  • Útbúa sérstakan læsissáttmála fyrir foreldra og innleiða hann um land allt með margvíslegum aðgerðum.
  • Auka vitund foreldra um ábyrgð sína á læsi barna sinna.
  • Virkja foreldra í að styðja við læsi barna sinna.
  • Auka samstarf kennara og foreldra.
  • Koma á framfæri kynningarefni um áherslur og samstarf þriðja geirans og stjórnvalda við að efla læsi barna.

Framlag ráðuneytisins til samnings þessa er 14 milljónir króna og miðast við verkáætlun sem Heimili og skóli hafa lagt fram og ráðuneytið samþykkt. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2016 til ársloka 2016.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum