Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Listdansnám tryggt með heildstæðri námskrá

Starfshópar sem skipaðir voru af menntamálaráðherra hafa lokið við að semja námskrár fyrir nám í listdansi.

Starfshópar sem skipaðir voru af menntamálaráðherra hafa lokið við að semja námskrár fyrir nám í listdansi. Námskrá í listdansi er tvískipt og greinist í námskrá fyrir grunnstig, annars vegar,og framhaldsstig, hins vegar. Námskrárnar eru birtar á vef ráðuneytisins og er gefinn kostur á athugasemdum til 24. apríl nk. áður en ráðherra staðfestir námskrárnar endanlega.

Breytingar verða á fyrirkomulagi listdansnáms frá og með næsta skólaári. Starfsemi Listansskóla Íslands leggst þá niður í núverandi mynd. Frá sama tíma verður boðið upp á nám til stúdentsprófs á sérstöku kjörsviði í listdansi við Menntaskólann í Hamrahlíð. Miðað er við að samið verði við einkarekna listdansskóla um hinn verklega hluta námsins. Einnig er miðað við að einstakir framhaldsskólar geti boðið upp á nám í listdansi í vali, enda semji þeir þá við sjálfstætt starfandi listdansskóla sem kenna listdans á framhaldsstigi skv. nýrri námskrá.

Eins og kunnugt er hefur einkahlutafélagið Dansmennt verið stofnað með það að markmiði að starfrækja listdansskóla fyrir alla aldurshópa og á öllum námsstigum. Hinn 1. desember sl. var greint frá undirritun viljayfirlýsingar milli menntamálaráðuneytis, Menntaskólans við Hamrahlíð og Dansmenntar ehf. um samstarf um listdansnám á framhaldsskólastigi. Skólinn tekur til starfa sumarið 2006 undir merki Listdansskóla Íslands. Hann mun bjóða upp á nám samkvæmt gildandi námskrá skólaárið 2006-2007, í núverandi húsnæði Listdansskóla Íslands að Engjateigi í Reykjavík.

Dansmennt ehf. var upphaflega stofnað af kennurum við Listadansskóla Íslands, en nú hefur verið gert samkomulag milli stofnenda félagsins og Listaháskóla Íslands, um yfirtöku Listaháskólans á félaginu. Jafnframt liggur fyrir að Lauren Hauser mun gegna stöðu skólastjóra við skólann. Verður gengið frá formlegri viðurkenningu hins nýja skóla á næstu dögum, en fyrirhugað er að inntökupróf fyrir næsta skólaár verði haldin í lok mánaðarins.

Menntamálaráðuneytið telur að með framangreindum breytingum, þ.e. með heildstæðri námskrá fyrir listdans og með því að í boði er nám til stúdentsprófs á sérstöku kjörsviði, sé kominn traustur grundvöllur listdansfræðslu í landinu. Ráðuneytið trúir því jafnframt að sjálfstæðir listdansskólar muni sinna þessu mikilvæga námi af miklum metnaði.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum