Hoppa yfir valmynd
29. desember 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menningarverðlaun Sænsk-íslenska samstarfssjóðsins

Stjórn Sænsk-íslenska menningarsjóðsins hefur ákveðið að Menningarverðlaun sjóðsins fyrir árið 2006 falli í skaut prófessor Nirði P. Njarðvík.

Stjórn Sænsk-íslenska menningarsjóðsins hefur ákveðið að Menningarverðlaun sjóðsins fyrir árið 2006 falli í skaut prófessor Nirði P. Njarðvík.

Njörður hefur lagt mikið af mörkum til menningarskipta Íslands og Svíþjóðar, m.a. verið mikilvirkur þýðandi sænskra og Finnlands-sænskra ljóða. Má í því sambandi minna á söfn ljóðaþýðinga eftir skáld eins og Tomas Tranströmer (Tré og himinn) og Verner Aspenström (Vindar hefja sig til flugs), sem og ljóðasöfn eftir Edith Södergran, Bo Carpelan og Lars Huldén, auk fjölda annarra sænskra bóka.

Njörður var lektor í íslensku við Gautaborgarháskóla 1966-71 og gegndi þá jafnframt formennsku í samtökum erlendra lektora í Svíþjóð og sat í stjórn félags háskólakennara þar. Samtímis sinnti hann kennsluskyldu við háskólann í Lundi. Hann var formaður Sænsk-íslenska félagsins á Íslandi 1971-75.  Árið 2000 hlaut hann verðlaun Sænsku akademíunnar fyrir kynningu á sænskri menningu erlendis.

Njörður kenndi við Háskóla Íslands frá 1971 til 2004, þar af sem prófesssor frá 1993. Jafnframt hefur hann gegnt margvíslegum öðrum trúnaðarstörfum og má af mörgu nefna að frá 1997 hefur hann gegnt embætti stórmeistara Frímúrarareglunnar Le droit Humain. Hann er stofnandi og formaður SPES, alþjóðlegrar barnahjálpar, sem rekur heimili fyurir munaðarlaus börn í Togo.

Jafnframt kennslu og öðrum trúnaðarstörfum, er Njörður mikilvirkur rithöfundur á íslensku bæði sem ljóðskáld og prósahöfundur og var m.a um skeið formaður Rithöfundasambands Íslands og er nú heiðursfélagi sambandsins.Þá er hann einnig þekktur sem hugsanahöfundur og ljóðgreinir. Honum hefur veist margvísleg viðurkenning fyrir störf sín, m.a. orðuveitingar og er heiðursfélagi margra samtaka.

Kona hans er Bera Þórisdóttir kennari.

Sænsk-íslenski samstarfssjóðurinn var stofnaður 1995 í kjölfar gjafar sænsku ríkisstjórnarinnar til Íslendinga á fimmtíu ára lýðveldisári. Menningarsjóðurinn var stofnaður skömmu síðar og hafa verið veitt verðlaun úr honum sem næst annað hvert ár síðan. Fyrri verðlaunahafar eru þýðandinn Inge Knutson, Einar Bragi skáld, leikstjórinn Peter Enkvist og leikkonan Bára Lyngdal Magnúsdóttir, Aðalsteinn Davíðsson málfræðingur og orðabókarritstjóri og jarðfræðingurinn Gunnar Hoppe prófessor.

Stjórn Sænsk-íslenska sjóðsins fylgir  verðlaunaveitingunni  að þessu sinni úr hlaði með eftirfarandi orðalagi: Verðlaunin eru veitt prófessor Nirði P. Njarðvík fyrir  áratuga eftirbreytnisverð störf hans til að efla menningartengsl Svía og Íslendinga.

Verðlaunin verða veitt í Sænska sendiráðinu 29. desember kl. 17.00 og mun varaformaður sjóðsins, Sveinn Einarsson afhenda þau.

Reykjavík 29. desember 2006

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum