Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samkomulag um listaverk í eigu Arion banka

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, og Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka undirrituðu samkomulagið í Þjóðmenningarhúsinu í dag.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið annars vegar og Arion banki hins vegar hafa gert með sér samkomulag sem tryggir Listasafni Íslands forgang að þeim verkum í listaverkasafni bankans sem eru talin hafa mikla þýðingu fyrir íslenska listasögu, en bankinn hefur nú þegar fært listasafninu tvö þessara verka að gjöf. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, og Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka undirrituðu samkomulagið í Þjóðmenningarhúsinu í dag.

Eftir fall bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands, haustið 2008 tók mennta- og menningarmálaráðuneyti saman upplýsingar um listaverkasöfn þeirra. Í framhaldinu fól ráðuneytið Listasafni Íslands að gera listfræðilegt mat á listasöfnum bankanna þar sem verkin voru flokkuð í þrjá flokka; verk sem talin eru mikilvæg fyrir íslenska listasögu, verk sem mikilvægt er að verði áfram aðgengileg þjóðinni þótt þau séu í eigu bankanna og verk sem áfram verða í eigu bankanna en menningarstofnanir geta fengið að láni. Alls voru 1.238 verk í listaverkasafni Arion banka metin og þar af eru 392 verk talin falla í fyrrgreinda þrjá flokka. 193 þeirra eru metin í fyrsta flokk, sem eru eins og áður segir verk sem hafa mikla þýðingu fyrir íslenska listasögu og því talið mikilvægt að bætist við safneign Listasafns Íslands.

Samkomulagið við Arion banka felur í sér kauprétt ríkisins á þeim verkum í listaverkasafni Arion banka sem metin eru í fyrsta flokki næstu 12 ár, en forkaupsrétt að þeim tíma liðnum. Arion banki hefur þegar fært Listasafn Íslands tvö þessara verka að gjöf. Samkomulagið kveður einnig á um að saman tryggi Listasafn Íslands og Arion banki að öll þau verk sem tilgreind eru í hinum tveimur flokkunum verði aðgengileg þjóðinni eftir því sem við verður komið.

Tillögur um ráðstöfun listaverkasafns Nýja Kaupþings banka hf.


 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum