Dagur íslenskrar tungu
 • dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu

Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Íslandsbanki veitti verðlaunaféð og hefur gert síðan. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.

Íslendingar hafa verið hvattir til að draga íslenska fánann að húni á degi íslenskrar tungu.

Nánari upplýsingar veitir Hjördís Erna Sigurðardóttir, dagur.islenskrar.tungu@hi.is, hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Viðburðir á degi íslenskrar tungu 2015


 • Hátíðardagskrá í Bókasafni Mosfellsbæjar, á vegum mennta- og menningarmálaráðherra á degi íslenskrar tungu 6. nóvember 2015 kl. 16–17. Dagskrá


 • Dagskrá í Árnagarði á vegum Mímis, félagi stúdenta í íslenskum fræðum             Dagskráin hefst kl. 17:00 í stofu 301 í Árnagarði þann 16. nóvember. Boðið verður upp á kaffiveitingar í hléi. Dagskráin er svohljóðandi:                                                          -Þórunn Sigurðardóttir: „Það er mín hollust harmabót“. Sálfræðimeðferð í bundnu máli á 17. öld.
  - Hallgrímur J. Ámundason: Örnefni í Vesturbænum
  - Sveinn Yngvi Egilsson: Starf Jónasar Hallgrímssonar í ritlist
  - Samtökin '78: Mikilvægi hinsegin orðaforða
  - Einar Lövdal: Tónlistaratriði
  Kári Tulinius og Valgerður Þóroddsdóttir lesa úr nýútkomnum ljóðabókum sínum Brot hætt frum eind og Það sem áður var skógur. Sjá einnig á Facebook.
 • Vísubotn 2015 

  Menntamálastofnun efnir til vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2015, í fimmta sinn. Kveðskaparlist er merkilegur þjóðararfur sem vert er að halda á loft og hvetja nemendur til að stunda. Í keppninni spreyta nemendur sig á því að botna fyrriparta sem að þessu sinni eru eftir Helga Zimsen. Um er að ræða tvo fyrriparta fyrir hvern aldursflokk á yngsta-, mið- og unglingastigi. Fyrir besta vísubotninn á hverju stigi verða veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjöl. Vonast er til að sem flestir skólar taki þátt í þessu verkefni. Hér má lesa um úrslit keppninnar í fyrra.  Nánari upplýsingar um keppnina verða á vefsíðu Menntamálastofnunar innan tíðar.  Á safnvef Menntamálastofnunar, dagur íslenskrar tungu, er einnig fjöldi áhugaverðra verkefna sem nota má í tilefni dagsins. Þar má einnig nálgast efni vísnasamkeppninnar síðustu ár undir hnappnum Vísur og limrur .
 • Stóra upplestrarkeppnin 

  Stóra upplestrarkeppnin fagnar 20 ára afmæli sínu á þessu ári. Eins og fyrr hefst hún formlega á degi íslenskrar tungu.  Í flestum skólum landsins er dagsins minnst með viðhöfn og víða koma eldri nemendur inn í bekki yngri barna og lesa upp sögur og ljóð. Verðlaunahafar úr upplestrarkeppni síðasta árs lesa upp, haldnar eru ljóða- og smásagnasamkeppnir, ljóð Jónasar Hallgrímssonar eru kynnt, íslenskir málshættir sérstaklega athugaðir og fleira mætti nefna. 

  Litla upplestrarkeppnin í 4. bekk er sprotaverkefni út frá Stóru upplestrarkeppninni og byggist á sömu hugmyndafræði en er sniðið að yngri nemendum. Verkefnið hefst í sjötta sinn í Hafnarfirði og mjög víða á landinu síðast liðinn vetur eða í 60 skólum. Skýrslur um þetta skemmtilega verkefni eru á heimasíðu Stóru upplestrarkeppninnar og þar er einnig flest það sem tengist Litlu og Stóru upplestrarkeppninni.
 • Málþing í Hallgrímskirkju um Viðeyjarbiblíu (1841) kl. 12.10.

  Dagskrá:

  Dr. Sigurður Pálsson, fyrrverandi sóknarprestur, er málstofustjóri og flytur með inngangsorðum stutta kynningu á Viðeyjarbiblíu.

  Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, opnar rafrænan aðgang að Viðeyjarbiblíu.

  Dr. Guðrún Kvaran prófessor emerítus: Handritið ÍB 507 4to og Viðeyjarbiblía.

  Dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor: „Allir dauðlegir menn skulu sjá.“ Nokkur einkenni á Jesajaþýðingu Sveinbjarnar Egilssonar.

 • Íslensk veðurorð      

  Hvert er þitt eftirlætis veðurorð? Í íslensku eru fjölmörg og fjölbreytileg orð notuð um veður og veðurfar. Dagana 9.–16. nóvember verður vakin athygli á nokkrum þeirra á Facebook - og Twitter -síðum dags íslenskrar tungu. Þrjú veðurorð með skýringum verða birt daglega. Sum orðin eru lítið notuð en önnur algengari. Merkingarskýringar eru fengnar úr Íslenskri orðabók. Fólk er hvatt til að segja frá sínum eftirlætisveðurorðum á Facebook og Twitter og merkja færslurnar með myllumerkinu ‪#‎islenskvedurord‬.  

 • Hundur í óskilum í Gljúfrasteini

  Hljómsveitin Hundur í óskilum mun koma fram í Gljúfrasteini mánudaginn 16. nóvember kl. 17 og aðgangur verður ókeypis. Þeir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson munu fara á hundavaði í gegnum nokkrar af þekktustu skáldsögum Halldórs í tali og tónum. Með alvöruleysið að vopni rekja þeir söguþráð Sjálfstæðs fólks undir þekktu bítlalagi. Frægustu setningar Íslandsklukkunnar eru uppistaða annars hljóðgjörnings. Á milli eru sungin ljóð eftir Halldór, sagt frá bókum hans og öllum brögðum beitt til að opna sagnaheim hans fyrir unglingum. 

 • Dagskrá  í hátíðarsal Háskólans á Akureyri  16. nóvember kl. 16.00.

  - Kristjana Arngrímsdóttir syngur við undirleik Kristjáns Eldjárn Hjartarsonar
  - Kristín og Anna Halldóra Sigtryggsdætur flytja rímnalög við kvæði Jónasar Hallgrímssonar
  - Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur og dósent flytur erindið: Að alast upp á íslensku.
  Boðið verður upp á léttar kaffiveitingar. Allir velkomnir
 • Í Bókasafni Garðabæjar er dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur. Þar verða dregnar fram bækur um íslenskt mál og íslenskar bókmenntir hafðar í öndvegi. Skólakór Hofsstaðaskóla syngur fyrir gesti safnsins undir stjórn Unnar Þorgeirsdóttur.
 • Leikskólinn Sólvellir á Seyðisfirði býður foreldrum og velunnurum leikskólans í kaffiboð þar sem börnin syngja ljóð og sýna frumsamið skuggaleikhús 16. nóvember.
 • Á degi íslenskrar tungu ætla nemendur og kennarar í Heilsuleikskólanum Urðarhóli að koma saman í borðstofu skólans. Þar verður hver deild með sitt atriði, syngja, leika eða fara með kvæði.
 • Nemendur úr Selásskóla lesa fyrir leikskólabörn í leikskólanum Heiðarborg á degi íslenskrar tungu.  Einnig mun starfsfólk sýna leikritið Búkollu fyrir börnin í leikskólanum.
 • Í leikskólanum Brákarborg er hefð fyrir því að farið sé með ljóð og þulur eftir Jónas Hallgrímsson. Í fyrra var amma leikskólabarns fengin til að koma í heimsókn og lesa fyrir börnin og verður það endurtekið í ár.
 • Langholtsskóli býður elstu börnunum í hverfinu til sín og þar eru hópar frá hverjum leikskóla með atriði og fyrstubekkingar líka. Þar fá áhorfendur að heyra um ævi Jónasar Hallgrímssonar.
 • Í Bókasafninu á Húsavík verður 16. nóvember opnuð sýning á ljóðum og listaverkum barna í 4. og 5. bekk Borgarhólsskóla. Sýningin mun standa í 2 vikur.
 • Á degi íslenskrar tungu mæta börnin í fjórða bekk Rimaskóla í leikskólann Lyngheima. Þar verða þau með óvænta uppákomu í formi söngs, upplesturs eða leikþáttar úr ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Að henni lokinni fara Rimaskólabörnin inn á deildir og bjóða upp á lestur bóka fyrir leikskólabörnin.

 • Í Landakotsskóla verður haldið upp á afmælisdaginn með því að skreyta skólann með veðurorðum tæplega 200 nemenda sem eru á aldrinum fimm ára og upp í  10. bekk. Íslenskukennari skólans fann til 500 orða lista með orðum sem lýsa veðri sem kennarar hafa geta gluggað í ásamt öðru ítarefni. Í vikunni munu nemendur velja sér orð til umfjöllunar og annað hvort teikna stemningu orðsins, halda litla fyrirlestra hvert fyrir annað eða kynna þau með einhverjum hætti fyrir samnemendum sínum. Hugsanlega verða einhver ný orð til! Á afmælisdaginn sjálfan munu nemendur svo skreyta glugga skólans svo lesa megi veðurorðin um leið og horft er til veðurs. Í samsöng verða sungin lög við ljóð Jónasar.

 • Í Grunnskólanum á Reyðarfirði hefst dagurinn á því að fáni verður dreginn að hún og í framhaldi af því fara allir nemendur og kennarar inn í sal. Í salnum lesa sjöundubekkingar upp ljóð og haldin verður spurningakeppni þar sem nemendur keppa við kennara.
 • Á Barnaheimilinu Ósi verður degi íslenskrar tungu fagnað með því að halda “Litlu lestrarhátíðina”. Nokkrir rithöfundar munu lesa upp úr nýlegum barnabókum. Fjölskyldum barnanna er boðið hlýða á upplesturinn og njóta með börnunum sínum.---------------------------------------------------------


Til baka Senda grein