Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu 2009

Síðastliðin ár hefur skapast sú hefð að mennta-og menningarmálaráðherra heimsækir skóla og menningarstofnanir í einu ákveðnu sveitarfélagi á degi íslenskrar tungu. Hátíðardagskrá og afhending Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar auk tveggja sérstakra viðurkenninga fyrir störf í þágu íslensks máls er einnig haldin í því sveitarfélagi. Í ár verður Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra á Akureyri.

Dagskrá mennta- og menningarmálaráðherra á Akureyri:

kl. 09:30 Leikskóli – Leikskólalæsi - Kiðagil
kl. 10:15 Síðuskóli - Byrjendalæsi
kl. 11:00 Brekkuskóli – Orð af orði (Orðaforði)
kl. 11:40 Naustaskóli – Stóra upplestrarkeppnin
kl. 12:15 Dagskrá á vegum Akureyrarstofu – Heimsókn í Gudmanns Minde og í Davíðshús
kl. 13:15 Amtsbókasafnið – Hádegisverður - Tónlistaratriði - Hlutverk og þjónusta
kl. 14:00 Háskólinn á Akureyri - Íslenskuhátíð á degi íslenskrar tungu
kl. 16:00

Hátíðardagskrá í Ketilhúsi, Kaupvangsstræti 23. Ráðherra afhendir Verðlaun Jónasar HallgrímssonarViðburðir í tilefni dags íslenskrar tungu 2009

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í Ketilhúsi

Á degi íslenskrar tungu, mánudaginn 16. nóvember, verður hátíðardagskrá þar sem mennta- og menningarmálaráðherra afhendir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2009 auk tveggja sérstakra viðurkenninga fyrir störf í þágu íslensks máls.

Dagskráin verður í Ketilhúsi, Kaupvangsstræti 23, Akureyri kl. 16-17.

 • Strengjasveit Tónlistarskólans á Akureyri leikur, stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson
 • Upplestur, verðlaunahafi úr Stóru upplestrarkeppninni
 • Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra
 • Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar afhent
 • Ávarp verðlaunahafa
 • Ungkvennakór Akureyrarkirkju syngur, stjórnandi Eyþór Ingi Jónsson
 • Mennta- og menningarmálaráðherra afhendir tvær viðurkenningar á degi íslenskrar tungu
 • Upplestur, verðlaunahafi úr Stóru upplestrarkeppninni
 • Dagskrárslit ― Veitingar í boði mennta- og menningarmálaráðuneytis

  Allir velkomnir!

Íslenskuhátíð í Háskólanum á Akureyri

Á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, verður hátíðardagskrá í Háskólanum á Akureyri á vegum framhaldsskóla og Háskólans á Akureyri. Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir og Stefán Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri ávarpa samkomuna, Gréta Kristín Ómarsdóttir, nemi í MA flytur erindi um íslenska tungu, Bragi Guðmundsson, prófessor við HA um átthagakveðskap og Kristín S. Árnadóttir, framhaldsskólakennari í VMA flytur erindið: Það stóðu þrjár skóflur upp úr gröfinni þegar þau gengu framhjá,

Þórarinn Eldjárn í sal Menntaskólans á Akureyri

Menningarfélagið Hraun í Öxnadal ehf. býður upp á fyrirlestur í tilefni dagsins. Þórarinn Eldjárn flytur erindið ,,Jónas að grínast" í sal Menntaskólans á Akureyri 16. nóvember kl. 17.30.

Ljóð í náttúru í Snæfellsbæ

Í tilefni af degi íslenskrar tungu verður opnuð ljóðasýning í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og hjá Vör föstudaginn 13. nóvember. Afhjúpuð verða ljóð á Öndverðarnesvita og ljóðasýning opnuð í Vör. Nemendur Grunnskóla Snæfellsbæjar lesa frumsamin ljóð. Heitt súkkulaði og pönnukökur.

Sýning á ljóðum barna í Borgarnesi

Næstkomandi fimmtudag klukkan 16.00 verður opnuð ljóðasýning barna í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi. Um er að ræða sýningu á ljóðum krakka í fimmtu bekkjum í grunnskólunum í nágrenninu og munu ungskáldin mæta á sérstaka dagskrá í Safnahúsi í tilefni þessa. Þar verður skálda minnst og lesin ljóð auk þess sem Hildur M. Jónsdóttir frá Brúðuheimum kemur á svæðið og fjallar um sköpunarþáttinn í brúðugerðinni. Ljóðasýningin verður síðan opin almenningi til 26. nóvember næstkomandi. Þetta er í fimmta sinn sem Safnahús gengst fyrir svipaðri uppákomu um bókmenntasköpun barna og er þetta ekki síst gert í því augnamiði að hvetja til þessa tjáningarforms, en dagsetningin er höfð sem næst Degi íslenskrar tungu. Skólarnir sem taka þátt í keppninni eru Grunnskólinn í Borgarnesi, Grunnskóli Borgarfjarðar, Heiðarskóli, Laugargerðisskóli og Varmalandsskóli.

Mánudagsmenning í Vinaminni á Akranesi

Á Degi íslenskrar tungu mun Kammerkór Akraness vera með dagskrá á Mánudagsmenningu í safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi. Þar mun kórinn flytja íslenska kórtónlist við glæsilega texta íslenskra skálda. Einnig mun Jakob Þór Einarsson leikari koma fram. Dagskráin verður í tali og tónum þar sem áheyrandinn fær góða innsýn inn í það sem flutt verður og jafnvel fær að taka þátt!! Á meðal þeirra íslensku skálda sem verður gert hátt undir höfði má nefna Hallgrím Pétursson, sr. Ólaf Jónsson frá Söndum,Jónas Hallgrímsson, Magnús Eiríksson og Megas. Stjórnandi er Sveinn Arnar Sæmundsson. Dagskráin hefst kl. 20:30 og aðgangseyrir er kr. 1000.

Skemmtidagskrá í Svalbarðsskóla í Þistilfirði

Á degi íslenskrar tungu verða nemendur Svalbarðsskóla í Þistilfirði með dagskrá í skólanum kl. 20:00
um Snæbjörn Einarsson frá Garðstungu. Þau lesa upp ljóð eftir sig, leika á hljóðfæri og fleira verður til skemmtunar. Kaffiveitingar verða eftir skemmtidagskrána.

Skemmtidagskrá nemenda á Þórshöfn í Þórsveri

Grunnskólinn á Þórshöfn heldur dagskrá í félagsheimilinu Þórsveri sem hefst kl. 18.00. Þar koma nemendur fram í tilefni dagsins og sýna hvað í þeim býr.
Allir eru velkomnir og er frítt inn en seldar verða veitingar á staðnum.

Orðið.is - Samkeppni

Okkur er ánægja að tilkynna að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur opnað aðgang að gögnum úr Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN). Aðgangurinn er veittur með atbeina Já, sem stutt hefur stofnunina með veglegum fjárstyrk í þessu skyni. Með þessu framtaki er tryggt að allir hafi aðgang að þessum mikilvægu gögnum og geti nýtt þau í leik og starfi.

Til að fylgja þessu framtaki efnir Já til samkeppni um hugvitsamlega notkun á gögnunum. Vegleg verðlaun verða veitt fyrir fyrstu 3 sætin í keppninni.
1. verðlaun: 300.000 kr
2. verðlaun: 100.000 kr
3. verðlaun: 50.000 kr
Þar að auki verður möguleiki á sérstökum aukaverðlaunum.

Nánari upplýsingar um samkeppnina má fá á heimasíðunni

Jónasarvaka 2009 í Þjóðmenningarhúsinu

Árleg Jónasarvaka Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal og Þjóðmenningarhússins verður haldin í Bókasal Þjóðmenningarhússins við Hverfisgötu á degi íslenskrar tungu, mánudaginn 16. nóvember n.k., og hefst klukkan 17.15.

Gerður Kristný, rithöfundur og skáld, flytur erindið: Hvernig verður maður ástmögur þjóðarinnar? Hamrahlíðarkórinn flytur lög við ljóð Jónasar eftir íslensk tónskáld og Tryggvi Gíslason, formaður Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal, ræðir um ljóð Jónasar. Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á tónsmíð Jóns Leifs við Sólsetursljóð Jónasar Hallgrímssonar, sem aðeins hefur verið flutt einu sinni áður.

Listasafn Einars Jónssonar

Dags íslenskrar tungu 16. nóvember n.k. verður minnst í Listasafni Einars Jónssonar með heimsókn nemenda Austurbæjarskóla í safnið þar sem þeir munu flytja og syngja íslensk ljóð og stemmur undir stjórn Péturs H. Jónssonar tónmenntakennara skólans.

Málræktarþing Íslenskrar málnefndar og Mjólkursamsölunnar í hátíðasal HÍ

Málræktarþingið verður laugardaginn 14. nóvember kl. 11.00-13.30 í hátíðasal Háskóla Íslands. Aðalefni þingsins er „Íslenska í skólum“. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp og fulltrúar allra skólastiga halda erindi. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er skrifstofa Íslenskrar málnefndar og hefur með höndum undirbúning þingsins ásamt málnefndinni og Mjólkursamsölunni.

Hátíðardagskrá Mímis - Háskóla Íslands

Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum, stendur fyrir hátíðardagskrá í tilefni af degi íslenskrar tungu, mánudaginn 16. nóvember. Hátíðin fer fram í stofu 201 í Árnagarði við Suðurgötu og hefst kl. 17:00. Margrét Eggertsdóttir fjallar um Hallgrím Pétursson og samtímann, Helga Birgisdóttir um áhrif Nonnabókanna á íslenskar barnabækur, Dagný Kristjánsdóttir um ástina frá Ferðalokum Jónasar til Kvenna Steinars Braga og Guðjón Ragnar Jónasson um orðaforðakennslu. Auk þeirra stíga fram Halla Kjartansdóttir, þýðandi bóka Stieg Larsson og Fríða og Pálmar úr Klassart. Fundarstjóri er Brynhildur Stefánsdóttir.

Menntavísindasvið HÍ

Fagráð í íslensku mun í samvinnu við samtök eldri borgara í Kópavogi
standa fyrir dagskrá tengdri Jónasi Hallgrímssyni með upplestri og söng.
Kl. 12.00 í Fjöru (í húsnæði menntavísindasviðs, Stakkahlíð/Háteigsvegi).

Ástarorð og -pungar í Ársafni

Undanfarin ár hefur ýmislegt verið gert í tilefni dags íslenskrar tungu í Ársafni Borgarbókasafns, starfsfólk hefur lesið upp í fyrirtækjum og stofnunum hverfisins, tekið þátt í upplestri í Árbæjarkirkju og fengið gesti til að velja fallegasta íslenska orðið. Hlutskarpast var orðið; ÁST!

Nú er komið að gestum að lesa upp á bókasafninu. Safnið stendur fyrir maraþon-upplestri mánudaginn 16. nóvember frá kl. 11-19. Nokkrir góðirgrannar frá vinnustöðum, skólum og heimilum í hverfinu ætla að lesa upp og starfsmenn munu einnig taka þátt, en þema dagsins er ást og vinátta í öllum sínum myndum. Sögustóllinn er einnig opinn gestum og gangandi á öllum aldri. Lesefnið verður fjölbreytt því hver lesari getur komið með texta sem hann langar að lesa, en einnig verður hægt að fá valda texta á staðnum. Safnið býður upp á kaffi, djús og ástarpunga í tilefni dagsins. Allir eru hjartanlega velkomnir til að hlusta, lesa og njóta. Ársafn er í Hraunbæ 119.

Dæmi um viðburð í framhaldsskóla

Nemendur og kennarar Menntaskólans við Sund lesa skáldrit á íslensku frá
kl. 10:30-11:10. Hefðbundið starf leggst niður á meðan. Nemendur og
kennarar setjast niður og lesa, ekki hinar hefðbundnu kennslubækur heldur
skáldrit, þýdd eða frumsamin á íslensku. Nemendur eru hvattir til að taka
skáldsögu með sér í skólann þennan dag. Á Bókasafni MS er einnig að finna
úrval skáldsagna og þennan dag verður bókasafnið með tvær útstöðvar til að
auðvelda fólki að ná í bækur fyrir lestímann. Margir hafa gefið bækur af
þessu tilefni.

Stóra upplestrarkeppnin í grunnskólum

Stóra upplestrarkeppnin hefst formlega á degi íslenskrar tungu; eldri börnin koma í bekki yngri barna og lesa upp sögur og ljóð; verðlaunahafar úr upplestrarkeppni síðasta árs lesa upp; ljóða- og smásagnasamkeppni; ljóð Jónasar Hallgrímssonar kynnt; íslenskir málshættir sérstaklega athugaðir.

Efnt til íslenskuverðlauna fyrir reykvísk skólabörn

Menntaráð Reykjavíkurborgar efnir til íslenskuverðlauna fyrir reykvísk skólabörn. Þeim verður úthlutað á degi íslenskrar tungu. Markmið þessara verðlauna er að auka áhuga æskufólks á íslenskri tungu og hvetja það til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs. Verðlaunin verða veitt nemendum sem hafa tekið framförum og eða náð góðum árangri í íslensku, hvort heldur þeir hafa hana að móðurmáli eða læra hana sem annað tungumál.

Dæmi um dagskrá í grunnskólum

Í Hamraskóla hefur verið haldið upp á dag íslenskrar tungu árum saman. Lestrarvinirnir byrja alltaf þennan dag, nemendur í fjórða bekk fara í leikskólann Klettaborg og lesa fyrir börnin þar, lestrarsprettur endar með dagskrá á sal, einnig er upplestur á sal o.fl. Kennarar á eldra stigi halda einnig upp á daginn með ýmsu móti.

Raddir Íslands á hálfvirði - Grunnskólar

Í tilefni af degi íslenskrar tungu hefur Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði ákveðið að bjóða öllum grunnskólum landsins að kaupa mynddiskinn Raddir Íslands á sérstöku kynningarverði. Á mynddiskinum (dvd) gefur að sjá og heyra fólk víðs vegar að af landinu og á öllum aldri syngja rímnalög, tvísöngslög, barnagælur og þulur, sálmalög og druslur, auk þess sem sýndir eru sagnadansar og gömlu dansarnir. Meðfylgjandi er vandaður bæklingur á íslensku og ensku.

Mynddiskurinn kom út sumarið 2009 og er 94 mínútur að lengd. Hann kostar kr. 4.990 í búð en býðst grunnskólum landsins á kr. 2.500. Tilboðið gildir til 31. janúar 2010. Þeir skólar sem vilja nýta sér þetta tilboð sendi póst á setur@folkmusik.is og þeir fá sendan diskinn um hæl.Sendingarkostnaður er innifalinn í kaupverði. Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði:

Dæmi um dagskrá í leikskóla

Á Hlíðarenda í Hafnarfirði hefst dagskrá í tilefni dags íslenskrar tungu klukkan 10.15 með söngnum ,,Á íslensku má alltaf finna svar". Hver deild í skólanum verður síðan með atriði og Þórarinn Eldjárn les úr ljóðabók(um) sínum og spjallar við börnin. Dagskránni lýkur með skólasöng Hlíðarenda.

Til baka Senda grein