Hoppa yfir valmynd
25. maí 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Aðalfundur hjá Félagi grunnskólakennara, Félagi leikskólakennara og Félagi stjórnenda leikskóla

18. maí 2011, Grand hótel

Góðir þinggestir

Síðastliðinn mánudag 16. maí undirritaði ég nýjar aðalnámskrár fyrir leikskóla og framhaldsskóla við örlitla athöfn í ráðuneytinu að viðstöddum starfsmönnum menntaskrifstofu ráðuneytisins, nokkrum aðalhöfundum námskránna auk annarra hagsmunaaðila skólamála. Undirritun aðalnámskrár fyrir grunnskóla bíður þar til frumvarp til breytinga á gildandi grunnskólalögum hefur verið samþykkt sem ég vona að takist fyrir þinglok.

Þetta var stór stund sem eftir hefur verið beðið lengi. Sumir hafa minnst á að ritun námskrár megi kannske líkja við erfiða meðgöngu þar sem gæta þarf að ýmsu til þess að afurðin verði sem lífvænlegust en mesta vinnan sé þó eftir. Og þar er ég hrædd um að komi til kasta ykkar, góðir kennarar. Þá reynir á visku ykkar, innsæi, vilja og þor og reynslu við að takast á við nýjar hugmyndir og útfæra þær svo þær nýtist börnunum okkar. Öllum börnum og ungmennum í skólum víðs vegar um land og framtíðarþegnum í þessu landi.

Aðalnámskrá er mikilvæg undirstaða skólastarfsins en námskráin ein og sér hefur lítið gildi. Það er túlkun hennar og framkvæmd sem skiptir máli. Skólastarfið stendur og fellur með faglegu starfi kennara og skólastjórnenda, innan og utan kennslustofunar. Við getum breytt námskrám, við getum breytt námsefninu, við getum breytt skólahúsnæðinu og keypt ný kennslutæki og búnað, en ekkert af þessu bætir skólastarfið NEMA fyrir tilstuðlan kennarans. Kennarinn er hjartað í skólanum. Ég vona að nýjar námskrár fyrir leikskóla og grunnskóla geti orðið ykkur leiðsögn í mikilvægum störfum og skapað samtalsgrundvöll fyrir áframhaldandi þróun í skólastarfi.

Við fengum sérfræðinga til liðs við okkur, fyrst og fremst menntaða og reynda kennara til þess að gera aðalnámskárnar sem bestar úr garði. Þær þurftu mikla umræðu og mikilla lagfæringa við en ég vona svo sannarlega að um þær takist sátt.

Menntastefna

Frá því ég tók við starfi mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið unnið að innleiðingu nýrrar menntastefnu. Ný lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla voru samþykkt árið 2008 en vinna við aðalnámskrá kom í minn hlut.

Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum.

Grunnþættirnir sex

Í kjölfar efnahagshrunsins sem varð hér skömmu eftir samþykkt menntalaganna 2008 tók ég ákvörðun um að hugað yrði sérstaklega að hlutverki skólakerfisins í þeirri uppbyggingu og endurmótun samfélagsins sem nú á sér stað. Sú áhersla kom því inn í vinnu við aðalnámskrár þar sem einstaklings- og samfélagsmiðuð gildi almennrar menntunar á skóla­stigunum þremur eru skilgreind sem grunnþættir menntunar.

Grunnþættirnir eru:

  • Læsi: Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir skynja og lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á.
  • Sjálfbærni: Sjálfbærni snýst um að hugsa um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og við leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum.
  • Lýðræði: Í lýðræði taka einstaklingar afstöðu til siðferðilegra álitamála og virkan þátt í mótun samfélagsins. Í lýðræðisríki þurfa borgararnir að búa við mannréttindi og ráða öllum meiriháttar málum sínum sameiginlega. Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.
  • Jafnrétti: Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélagsinu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra. Áherslu ber að leggja á að drengir og stúlkur eigi sem jafnasta og víðtækasta möguleika. Hvergi í skólastarfinu, í inntaki né starfsháttum, ættu að vera hindranir í vegi annars hvors kynsins.
  • Heilbrigði og velferð: Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla. Veita þarf fræðslu um hreyfingu, efla hreyfifærni og skapa öruggt umhverfi sem hvetur alla til hreyfingar.
  • Sköpun: Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpun byggir á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins.

Leiðarljós leikskólastarfs, sem birtast í aðalnámskrá leikskóla, byggja á lögum um leikskóla og á grunnþáttum íslenskrar menntunar. Þar kemur fram skýr sýn á börn og leikskólastarf. Áhersla er lögð á styrkleika barna og hæfni og virðing fyrir margbreytileika mannlífsins. Einnig er lögð áhersla á vernd og leiðsögn fullorðinna og að uppeldi, umönnun og menntun myndi eina heild. Byggt er á virðingu og umhyggju og að börn fái hvatningu og viðfangsefni við hæfi. Leiðarljósin eiga að vísa hverjum leikskóla veginn í mótun leikskólastarfs og á starf leikskóla að taka mið af þeim. Lögð er áhersla á að kennarar og stjórnendur í leikskólum fái svigrúm til að þróa leikskólastarfið á faglegan og skapandi hátt. í skólanámskrá leikskólans.

Í nýjum almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla er að finna nánari útfærslu á ákvæðum laga um grunnskóla og reglugerða um nám og kennslu í grunnskóla.

Grunnskólinn er eina skólastigið sem nemendum er skylt að sækja og er því mikilvægur vettvangur til að þroska með nemendum hæfni í anda grunnþáttanna og sem búa þau undir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Í aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um uppeldis- og menntunarhlutverk grunnskólans og sett fram meginstefna um kennslu og kennsluskipan.

Viðmiðunarstundaskrá, sem sýnir hlutfallslegt vægi milli námsgreina og námssviða, er hluti af aðalnámskrá. Í nýrri aðalnámskrá er vægi móðurmáls og erlendra mála aukið, en dregið úr frjálsu vali nemenda á móti.

Innleiðing
Gildistöku menntalaganna hefur verið fylgt eftir með fjölbreyttu þróunarstarfi í íslenskum skólum á öllum skólastigum. Með nýjum aðalnámskrá munu allir leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar þurfa að endurskoða skólanámskrár sínar með hliðsjón af nýjum áherslum.

Til að styðja við innleiðingu nýrrar aðalnámskrár er fyrirhugað að gefa út sérstök þemahefti fyrir kennara þar sem skýrðar eru nánar forsendur hinnar nýju menntastefnu og kynntar hugmyndir um útfærslu hennar. Hafinn er undirbúningur að þemaheftum um grunnþættina sex, en einnig verðua gerð hefti um námsmat og mat á skólastarfi og síðar um aðr mikilvæga þætti skólastarfs.

Nýjar námskrár munu væntanlega hvetja til námsefnisgerðar á hefðbundnum námssviðum, en einnig í nýjum námsþáttum. Ráðuneytið hefur þegar reynt að beina styrkveitingum úr Þróunarsjóði námsgagna og Sprotasjóði í verkefni sem styrkja þróunarstarfa í anda hinna nýju námskráa.

Kennaramenntun þarf einnig að efla og kynna þarf nýjungar í nýjum námskrám. Einkum mun þurfa að auka og styrkja símenntun starfandi kennara og styðja þá í innleiðingu nýrra hugmynda í skólastarfi. Ráðuneytið vinnur nú með Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og kennamennt­unar­stofnunum í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Listaháskóla Íslands að nýskipan símenntunar kennara, sem m.a. tekur tillit til menntastefnu hinnar nýju aðalnámskrár.

Það er bjargföst skoðun mín að kennarar og skólastjórnendur gegni hér lykilhlutverki.

Það eru gömul sannindi að engin raunveruleg þróun verður í skólastarfi nema fyrir tilstuðlan kennara og skólastjórnenda. En fagmennska kennarans ræðst ekki einungis af menntun hans og sérþekkingu. Hún snýst ekki síður um viðhorf hans til barnsins, umhyggju fyrir því og áhuga á menntun þess og velferð. Og því að veita börnum og ungmennum í skólum landsins tækifæri til þess að afla sér þekkingar og leikni, örva starfsgleði þeirra og efla frjóa hugsun.

Það hafa orðið miklar breytingar á íslensku samfélagi undanfarin ár. Breytingar þessar hljóta að hafa áhrif á skólakerfið eins og annað í þjóðfélaginu og þá um leið á nám nemenda og starf kennara. Starf kennarans er afar krefjandi þó gefandi sé. Ég skil það vel ef þeir taka ekki öllum breytingum á námskrám fagnandi. En okkur er nauðsyn að taka mið af því hvernig þjóðfélagið hefur breyst þegar litið er til nýrra námskráa.

Og margt af því sem talað er um í nýjum aðalnámskrám er ég sannfærð um að er til bóta. Ég vona svo sannarlega að vel hafi tekist til en eins og ég sagði áður þá er mesta vinnan eftir. Nú tekur alvaran við, nú er komið að því að ala upp krógann! En ég treysti ykkur til þess!

Gangi ykkur vel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum