Styrkir - Grunnskólar

Undanþágur frá töku samræmdra prófa í 4. og 7. bekk grunnskóla

Undanþágur frá töku samræmdra prófa Í júní 2008 samþykkti Alþingi ný lög um grunnskóla, lög nr. 91/2008, sem tóku gildi 1. júlí sl. og féllu þá úr gildi eldri lög nr. 66/1995 um grunnskóla.

Samkvæmt 39. gr. laga um grunnskóla er skólastjórum nú heimilt, ef gildar ástæður mæla með því og ef samþykki foreldra liggur fyrir, að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk. Skólastjórar skulu tilkynna Námsmatsstofnun um þá nemendur sem fá undanþágu frá því að þreyta könnunarprófin og tilgreina ástæður undanþágu.

Um er að ræða undanþágur fyrir:

  1. Nemendur með annað móðurmál en íslensku sem geta fengið undanþágu frá því að þreyta samræmt könnunarpróf í íslensku í 4., 7. og 10. bekk. Jafnframt er heimilt að veita þessum nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmt könnunarpróf í stærðfræði hafi þeir dvalið skemur á landinu en eitt ár.
  2. Nemendur í sérskólum, sérdeildum og aðra þá nemendur á skyldunámsaldri sem taldir eru víkja svo frá almennum þroska að þeim henti ekki samræmd könnunarpróf.
  3. Nemendur sem orðið hafa fyrir líkamlegu eða andlegu áfalli sem gerir þeim ókleift að þreyta samræmt könnunarpróf.